Hornalínustrætið
Ég skokkaði í morgun fram og til baka eftir efri hluta Avinguda Diagonal — Hornarlínustrætinu — sem liggur skáhallt í gegnum annars vandlega rúðustrikað Eixample hverfið. Diagonal strætið er um margt sérkennilegt fyrirbæri. Þrátt fyrir að vera ein af helstu umferðaræðum Barcelona þá er hún einnig talsvert vinsælt útivistarsvæði meðal skokkara, hjólreiðafólks og línuskautara.
Það sem mér finnst sérkennilegast við götuna er hins vegar skipulagsleysi — eða réttara sagt fjölbreyni í skipulagi. Engir tveir hlutar götunnar eru eins og á köflum er skipulagið heldur flókið. Í grófum dráttummá lýsa þversniði mismunandi hluta götunnar á eftirfarandi hátt:
Vestur hluti: gangstétt, akbraut í austur, sporvagn í austur, sporvagn í vestur, akbraut í austur, akbraut í vestur, gangstétt, hjólastígur í austur, hjólastígur í vestur, akbraut í vestur, gangstétt.
Miðpartur: gangstétt, akbraut í austur, gangstétt, hjólastígur í austur, akbraut í austur, akbraut í vestur, hjólastígur í vestur, gangstétt, akbraut í vestur, gangstétt.
Austurhluti: gangstétt, akbraut í austur, sporvagn í austur, hjólastígur í austur, gangstétt, hjólastígur í vestur, sporvagn í vestur, akbraut í vestur, gangstétt.
Það skal tekið fram að eingis er um að ræða þrjú dæmi um þversnið. Aðrar útfærslur má finna á öðrum köflum götunnar.
Það eru fleiri en ég sem eru á því að gatan sé helst til flókin og hafi þörf fyrir endurskipulagningu. Einn þeirra er Borgarstjóri Barcelona sem vill gera götuna að breðstræti frá fjalli til fjöru.
Eftir nokkurra mánaða skipulagsvinnu og ítarlegar grenndarkynnigar var í síðustu viku haldin íbúakosning um framtíð Hornalínustrætisins. Borgarbúar gátu valið um tvær útfærslur:
a) Breiðstræti með bíla- og sporvagna umferð í miðjunni en gangandi og hjólandi beggja vegna.
b) Römblu með gangandi- og hjólandi umferð í miðjunni en bíla og sporvagna beggja vegna.
Til þess að friða borgarstjórnarminnihlutann var síðan einum valkosti bætt við:
c) Óbreytt skipulag — skipulagsleysi.
Á hádegi í dag voru úrslit íbúakosningarinnar gerð ljós. Úrslitin voru heldur afgerandi. 88% kosningabærra Barcelonabúa kaus valkost d) — að taka ekki þátt í kosningunni. Af þeim sem tóku afstöðu völdu 80% óbreytt skipulag, 11% breiðstræti og 8% römblu.
Skipulagsmál eru greinilega ekki efst í huga Barcelónabúa þessa dagana. Flestir hafa meiri áhuga á að vita hvort Barca nái að tryggja sér meistatitilinn annað árið í röð. Ég er einn þeirra. Best að drífa sig á barinn til að horfa á leikinn.