Túr er súr ?>

Túr er súr

Yfir hádegismatnum tölum við vinnufélagarnir oft um íþróttir. Það var gaman á meðan EM stóð yfir. Þá var vart um annað talað en fótbolta. Þar sem að ég fylgdist með boltanum þá gat ég tekið þátt í umræðunni. Nú vill svo til að nokkrir vinnufélagar mínir eru af einhverjum ástæðum afar áhugasamir um túrinn. Í hádeginu er rætt um sérleið dagsins eða sérleið gærdagsins. Mér hefur umræðan um sérleiðir þótt sérlega leiðinleg. Það eina sem ég veit um hjólreiðar er að gaurinn í gulu peysunni fær að kyssa tvær svaka skvísur.

Í dag gerði ég tilraun til að bæta hjólreiðakeppniskunnáttu mína. Ég ákvað að reyna að fylgjast með túrnum. Ég vissi þó fyrirfram að ég gæti ekki með nokkru móti setið og horft á menn hjóla klukkutímum saman. Ég ákvað því að horfa túrinn með öðru auganu en nota hitt augað til að vinna í að uppfæra útlitið á háskóla vefnum mínum. Ég verð þó að viðurkenna að þessi tilraun mín misheppnaðist. Ég sökkti mér í vefsíðusmíði og fylgdist lítið með hjólreiðaköppunum.

Ég fylgdist þó nógu vel með til að kynnast því hvað hjólreiðakappar Rabobank liðsins fá sér í hádegismat. Þó Frakkland sé þekkt fyrir matargerðarlist þá fá hjólreiðamennirnir ekki snigla í forrétt, steikta önd í aðalrétt eða plateau de fromage í eftirrétt. Á miðri sérleiðinni næla hjólreiðamennirnir sér í nestistösku sem inniheldur tvo orkuríka ávaxtasafa, tvö orkurík súkkulaðistykki, samloku með búðing og sneið af epplaköku. Það sem kom mér mest á óvart hvað varðaði mataræði kappanna var hversu mikið þeir drekka af kókakóla. Ég hefði haldið að þeir myndu heldur fá sér einhvers konar sérhannaða íþróttadrykki.

Skildu eftir svar