Italiensk for begyndere
Ég keypti mér í dag kennslubók í ítölsku fyrir byrjendur. Ég ætla að reyna að læra nokkur orð í málinu áður en að ég fer til Sardiníu í september. Ég las í gegnum fyrsta kafla bókarinnar og lærði að segja: "Buongiorno. Mi chiamo Mary Branson." Á morgun ætla ég að læra að biðja um að fá kaffi og kökusnúð.
Ég rambaði inn á tungumálavef BBC. Við fyrstu sýn virðist þetta vera prýðisgóður vefur. Þar er meðal annars að finna stöðupróf í fjórum tungumálum. Ég stóð mig best í frönsku. Fékk fullt hús stiga. Næst best stóð ég mig í þýsku. Fékk ellefu stig af tólf mögulegum. Svo virðist vera að mér hafi ekki tekist að verða fullnuma í ítölsku á einum eftirmiðdegi. Ég fékk einungis fjögur stig af tólf. Ég er þó betri í ítölsku en spænsku. Í spænskuprófinu nældi ég mér í þrjú stig. Þar af giskaði ég tvisvar á rétt.