Óblíðar móttökur
Það voru heldur óblíðar móttökurnar sem ég fékk við komuna til Amsterdam. Í póstkassanum heima beið mín bréf frá umsjónarmanni stúdentagarðanna. Þar var mér tilkynnt að borist hefðu kvartanir frá nágrönnum mínum vegna hávaða sem bærist frá íbúðinni minni. Kvartað var yfir að reglulega væru haldnar veislur sem stæðu langt fram á nótt. Veislurnar einkenndust af háværum umræðum á svölunum og ærandi tónlist. Af og til áttu veisluhöldin að hafa farið svo illilega úr böndunum að lögregla var kölluð á staðinn til þess að skakka í leikinn. Í bréfinu var ég beðinn um að láta veislugesti mína lækka róminn á svölunum og draga niður í tónlistinni. Ég er ansi hræddur um að eitthvað hafi farið úrskeiðis í kvörtunarþjónustu stúdentagarðanna. Það vill nefnilega svo til að ég hef ekki haldið neina veislu síðan ég flutti inn fyrir ári síðan; lögregluna hef ég aldrei fengið í heimsókn; og það fylgja engar svalir með íbúðinni þar sem ég bý.
Móttökurnar í vinnunni voru heldur verri. Er ég hafði unnir í nokkrar mínútur gaf sig harði diskurinn í tölvunni minni. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem harður diskur bilar í vélinni minni. Í fyrra skiptið var ég svo heppinn að diskurinn sem gaf sig var einungis vikugamall og vinnutap vegna ónýtra gagna var þess vegna afar lítið. Seinni diskurinn hefur hins vegar dugað í nokkra mánuði. Á disknum var því afrakstur nokkurra mánaða vinnu. Það er hins vegar ekki enn ljóst hversu stór skaðinn er. Á mánudaginn ætla kerfisstjórarnir að kíkja á vélina mína og vonandi tekst þeim að bjarga mestum hluta gagnanna. Sem betur fer þá geymi ég öll forritin mín og allar skýrslurnar mínar á öruggu drifi sem er afritað daglega. Í versta falli þarf ég því ,,bara“ að keyra forritin mín á ný til þess að endurskapa gögnin sem týndust. Það gæti hins vegar tekið mánuð eða tvo að komast á sama stað og ég var á fyrir viku. Það er hins vegar best að bíða með að svekkja sig þar til að ljóst er hversu miklum gögnum kerfisstjórunum tekst að bjarga.