Hjól, hálsmál og geitungur ?>

Hjól, hálsmál og geitungur

Í morgun varð ég fyrir stórskemmtilegri lífsreynslu (hún er alla vegana skemmtileg þegar ég lít til baka). Geitungi tókst að fljúga ofan í hálsmálið hjá mér þar sem ég hjólaði í vinnuna. Þar sem mér er ekkert sérlega vel við það að hafa geitunga innanklæða þá hófst ég strax handa við að gyrða skyrtuna og bolinn upp buxunum. Á sama tíma reyndi ég að stugga við geitungnum í þeirri von um að hann flygi niður og undan skyrtunni. Geitungurinn tók þá upp á því að stinga mig í þumalfingurinn og hverfa síðan á braut. Ég geri ráð fyrir að hann hafi dottið niður dauður eftir stunguna. Ég veit það þó ekki fyrir víst því að allt gerðist mjög snöggt og þar að auki fyrir aftan bakið á mér.

Í þá mund er mér tókst að hrista af mér geitunginn þá tók ég eftir því að ég hafði gleymt að hætta að hjóla á meðan á átökunum stóð. Þar að auki hafði ég ekki gefið mér tíma til að athuga í hvaða átt ég hjólaði. Eftir að mesti vígahamurinn var runninn af mér þá leit ég fram fyrir mig og sá að ég stefndi beint á tré. Sem betur fer tókst mér þó að stoppa í snatri og forða áreksti. Það mátti hins vegar engu muna. Ég verð þó að viðurkenna að sagan hefði orðið skemmtilegri ef ég hefði hjólað á tréð í lokin. Það verður hins vegar að bíða betri tíma.

Í kvöld fór ég í mína fyrstu kennslustund í ljósmyndun. Ég mun fram að jólum sækja ljósmyndunarnámskeið á vegum menningarstofnunar Amsterdamháskólanna. Í fyrstu kennslustundinni lærðum við hvernig myndavél virkar. Mesta áherslan var lögð á hvernig hægt er að leika sér með ljósnæmi filmu, tökuhraða og vídd ljósops. Einnig litum við inn í myrkraherbergið og bjuggum til "fotograms". Það er að segja, við settum hluti á ljósmyndapappír og lýstum upp. Eftir að búið er að framkalla, stoppa, fixa, skola og þurka pappírinn þá situr eftir hvít mynd af hlutunum á svörtum bakgurnni. Þessar myndir eru tilvaldar til jólagjafa.

Áður en að ég fór á ljósmyndanámskeiðið þá þurfti ég að skreppa í búð og kaupa batterí í myndavélina mína. Því eins og lesendur dagbókarinnar vita ekki þá kláruðust batteríin í myndavélinni minni á ögurstundu á Sardiníu. Það minnir mig á það að ég hafði lofað að halda áfram með ferðasöguna frá Sardiníu. Þar er ég ansi hræddur um að ég hafi lofað upp í ermina á mér. Enda finnst mér betra að hafa loforð upp í erminni en að fá geitung niður um hálsmálið. En allavegana, þá held ég kannski áfram með ferðasöguna einhvern tíman. Í versta falli mun það bíða þangað til að ég gef út æviminningarnar mínar. Það ætti að verða skemmtilegur lestur því að ég er nefnilega svo gleyminn.

Skildu eftir svar