Um skynsemi
Um síðustu helgi skrapp ég í bæinn til þess að kaupa mér yfirhöfn. Eftir að hafa pínt mig í nokkrar búðir þá fann ég í Zöru yfirhöfn sem mér leist nokkuð vel á. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ég ákveðið að kaupa flíkina án tafar. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk ég þá flugu í höfuðið að það væri kannski skynsamlegt að hugsa sig tvisvar um; kíkja á hvað væri á boðstólum í öðrum verslunum; og taka síðan að vel yfirlögðu ráði ákvörðun um það hvar flottustu flíkina væri að fá. Ég rölti því áfram niður götuna og kom við í fleiri verslunum og skoðaði úrvalið. Til að gera langa sögu stutta þá fann ég ekki neina flík sem mér líkaði við. Ég hafði þar að auki fengið nóg af búðarrápi og ákvað að fresta yfirhafnarkaupum fram í næstu viku.
Næsta vika leið næstum öll án þess að ég gæfi mér tíma til að skreppa í bæinn. Ég lagði mér því í dag leið niður í Zöru til þess að festa kaup á yfirhöfninni góðu. Þar komst ég hins vegar að því að yfirhöfnin var ekki lengur til í minni stærð (og raunar ekki heldur til í minni stærð; bara í stærri stærð). Ég snéri því heim á ný án nýrrar yfirhafnar.
Ég ætla svo sannarlega að draga lærdóm af þessarri reynslu. Þetta verður í síðasta skipti sem ég mun láta skynsemina ráða ferðinni í fatakaupum. Auk þess mun ég hugsa mig tvisvar um áður en ég ákveð aftur að hugsa mig tvisvar um.