Nýtt ár ?>

Nýtt ár

Eitt sinn sagði skáldið eitthvað á þessa leið: "Í Kollafirði og Keflavík; Það koma áramót". Það má því með sanni segja að áramót séu fjölþjóðlegur viðburður. Að þessu sinni upplifði ég sérlega fjölþjóðleg áramót. Nánar tiltekið upplifði ég fjórþjóðleg áramót. Ég hélt nefnilega upp á áramótin með Rússa, Eþíópíubúa og Úkraínumanni. Við hittumst heima hjá mér og borðuðum saman þríþjóðlega máltíð. Á borðum var hangikjöt, kartöflur, hvít sósa með grænum baunum, rauðkál, flatbrauð, eþíópískur lambakjötspottréttur og ristað brauð með sardínum og súrsuðum gúrkum að hætti Rússa. Ég er nú svosem enginn þjóðréttarfræðingur en get með sanni sagt að vel tókst til með matseldina. Með matnum var drukkið rauðvín og vodki. Ég og Eþíópíumaðurinn drukkum rauðvínið en Rússinn og Úkraínumaðurinn drukku vodkann.

Þar sem að stemming var svona fjórþjóðleg þá létum við okkur ekki nægja að halda upp á ein áramót. Þess í stað héldum við upp á fern áramót. Klukkan tíu héldum við upp á þau rússnesku. Við skáluðum fyrir úkraínsku nýju ári klukkan ellefu. Á miðnætti var komið að því að halda upp á nýtt hollenskt ár. Að lokum héldum við upp á íslensk áramót klukkan eitt. Við nenntum hins vegar ekki að vaka frameftir til að halda upp á eþíópísku áramótin. Þau eru nefnilega ekki fyrr en í september.

Rétt fyrir hollensku áramótin skruppum við í bæinn til að kynnast því hvernig Hollendingar fögnuðu nýju ári. Það var svosem ýmislegt kunnuglegt sem fyrir augu bar. Fólk var fullt og sprengdi flugelda. Flugeldarnir voru ekki svipur hjá sjón miðað við það sem gengur og gerist á Íslandi. Færri bombur en fleiri kínverjar. Auk kínverjanna var líka heill hellingur af Hollendingum í bænum. Við olnboguðum okkur áfram um bæinn og skemmtum okkur vel.

One thought on “Nýtt ár

Skildu eftir svar