Ratleikur og upplýsingaleit
Í morgun lá leiðin til Utrecht til að halda fyrirlestur á Hollensk-Belgísku upplýsingaleitarráðstefnunni. Þar sem að ég var fyrsti fyrirlesari dagsins þá ákvað ég að mæta tímanlega á svæðið, svona til vonar og vara ef að mér gengi erfiðlega að finna ráðstefnusalinn. Ég bjóst að vísu ekkert við að lenda á villigötum, enda voru leiðbeiningarnar skýrar. Ég þurfti bara að taka strætó 11 eða 12 frá aðalbrautarstöðinni í Utrect til De Uithof og þá væri ég kominn. Eða það hélt ég.
Það gekk vel að finna strætó 12. Það vildi einnig svo heppilega til að De Uithof var endastöð vagnsins og ég þurfti því ekkert sérlega að fylgjast með hvar ég ætti að fara út. Ég fór bara út á endastöðinni.
Eftir að ég steig út úr strætónum sá ég að ég var staddur fyrir utan barnaspítala Utrechtháskóla. Mér fannst svolítið skrýtið að upplýsingaleitarráðstefna skyldi vera haldin á spítala. Ég gekk því að upplýsingaborði spítalans og sagðist vera að fara á upplýsingaleitarráðstefnu í De Uithof og vildi fá að vita hvert ég ætti að fara. Konan leit á mig furðu lostin. Hún fræddi mig um að nafnið "De Uithof" væri notað um háskólasvæðið í heild sinni.
Nú voru góð ráð dýr. Háskólasvæðið var gríðar stórt og ég hafði ekki hugmynd um hvar ég ætti að leita. Sem betur fer reynist vera netkaffi fyrir sjúklinga á spítalanum. Ég gat því farið inn á vefsíðu ráðstefnunnar og fundið nafn á réttri byggingu, Van Unnik byggingunni. Þar að auki gat ég séð kort af háskólasvæðinu á vefnum.
Það var því leikur einn að finna Van Unnik bygginguna. Þar talaði ég við húsvörðinn og spurðist fyrir um hvar ráðstefnan væri. Hann benti mér á sal 105. Við nánari athugun reyndist salur 105 vera tölvuver. Það læddist að mér grunur um að ég væri ekki á réttum stað. Ég plataði því umsjónarmann tölvuversins til að hleypa mér á netið svo að ég gæti reynt að finna út hvað væri á seyði. Það kom á daginn að ráðstefnan var í Van Unnik byggingu í gær en í Went byggingu í dag. Ég hljóp því af stað á ný því að ég var alveg að missa af mínum eigin fyrirlestri.
Á endanum fann ég Went bygginguna. Nánar tiltekið fann ég hana á hinum endanum. Þ.e.a.s á hinum enda háskólasvæðisins miðað við barnaspítalann. Ég hljóp sveittur, móður og másandi inn í fyrirlestrarsalinn á slaginu korter í tíu. Nákvæmlega á þeim tíma sem ég átti að byrja að halda fyrirlesturinn. Salurinn var næstum tómur. Skipuleggjandi ráðstefnunnar var einn í salnum. Hann tilkynnti mér að dagskrá ráðstefnunnar hafði verið seinkað um hálftíma. Ég hafði því tíma til að ná andanum og fá mér kaffisopa.
Annars gekk fyrirlesturinn vel. Hann var að vísu í styttra lagi. Eins og fyrirlestrar mínir eiga það til að vera. Það gerði hins vegar ekkert til því að áheyrendur höfðu margar áhugaverðar spurningar.
2 thoughts on “Ratleikur og upplýsingaleit”
Þetta hefur verið æsispennandi ratleikur, ég svitnaði alveg með þér þarna í lokin við að lesa frásögnina 🙂
Ég held að ratleikir séu ekki við þitt hæfi; eini maðurinn sem hefur villst í Árbænum.