Kosningaskjálfti ?>

Kosningaskjálfti

Ég fékk í gær bréf frá borgaryfirvöldunum hér í bæ. Þau vildu undirbúa mig fyrir kosningarnar sem eru í nánd. Það er að segja kosningarnar í Írak. Þar sem að mikil spenna er í kringum kosningarnar þá verður ströng öryggisgæsla við alla kjörstaði. Það er því mikilvægt að ég sé vel upplýstur um þau öryggisatriði sem mig snerta.

Hingað til hafði ég talið mig búa í nægilegri fjarlægð frá Írak til að ég væri nokkurn veginn úr skotlínu. Það vill hins vegar svo til að ég bý í næsta húsi við kjörstað. Utankjörfundarkjörstað.

Ballið byrjar á morgun með skráningu kjósenda. Skráningin heldur svo áfram fram að kosningum. Öllu klabbinu lýkur svo í lok mánaðarins.

Næstu tvær vikurnar verður því öll bílaumferð bönnuð um nágrennið. Einnig verð ég að vera á varðbergi og láta lögregluna vita ef einhver biður um afnot af íbúðinni minni.

3 thoughts on “Kosningaskjálfti

  1. Nú er ég farinn að hafa áhyggjur af þér. Ég legg til að þú rjúkir núna útí búð og fjárfestir í skotheldu vesti sem fyrst. Jafnvel er hugmynd að þú fáir þér sprengjuleitarhund, því allur er varinn góður.
    Nú er svo spurningin hvort þú hafir orðið var við grunnsamlegar mannaferðir í næsta nágrenni við þig?
    Eftir allt þetta stríðsbrölt þitt þá er ég ekki frá því að þú sért gjaldgengur í „litla herinn“ hans Björns Bjarna. Þú sendir honum kannski línu og gerir grein fyrir afrekum þínum á stríðshrjáðu svæði í Amsterdam
    kv,
    Guðni Elís

  2. Valdi: Ég hélt að þessi „cash advance“ væri einhver vinnufélagi þinn úr bankanum. Ef þig vantar hins vegar pening þá get ég grafið upp meiri upplýsingar um kauða og komið þér í samband.

    Guðni: Hafðu engar áhyggjur. Ég er búinn að kaupa mér skothelda regnhlíf og sprengjuleitarsel.

Skildu eftir svar