Vetrarhörkur ?>

Vetrarhörkur

Nú ganga heilmiklar vetrarhörkur yfir Holland. Það kynngir niður snjó. Það fer nú kannski ekki mikið fyrir snjónum í Amsterdam miðri. Hins vegar eru snjóþyngsli heldur meiri inn til sveita.  Ég þurfti að hjóla í gegnum allt að fimmtíu millimetra jafnfallinn snjó á leiðinni í vinnuna í morgun.

Eins og venja er í þvílíku fannfergi þá fór umferð öll úr skorðum í morgun. Þegar mest var mældist lengd biðraða á hraðbrautum landsins fimmhundruðogsextíu kílómetrar. Fróðir menn segja að það sé fimmta lengsta biðraðasúpa í sögu þjóðarinnar.

Það er ekki hægt að segja annað en að vetrarveðrið hafi lagst vel í mig. Ég vaknaði fyrir allar aldir, mætti snemma í vinnuna og kom heilmiklu í verk. Það er þó ekki víst að allir hafi verið jafn hressir í dag.  Það telst nefnilega vísindalega sannað að tuttugastiogfjórði janúar sé sá dagur ársins sem fólki er hættast við þunglyndi.

One thought on “Vetrarhörkur

  1. Lentir þú í þunglyndi 24.janúar?
    Hvernig væri nú að fara að setja inn færslur hérna.
    Fannfergið er kannski svona mikið í Hollandi að þú ert fastur í skafli einhversstaðar.
    Ég verð nú bara að segja að ég er farinn að hafa verulegar áhyggjur af þér þarna í Amsd. Fyrst var það utankjörstaðar ævintýrið, svo snjórinn.
    Ertu viss um að það sé hreinlega öruggt fyrir þig að vera í Hollandi á þessum síðustu og verstu tímum 🙂

Skildu eftir svar