Nýtt skráasafn
Í dag bjó ég til skráasafn. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema vegna þess að skráasafnið heitir því skemmtilega nafni "thesis". Dagurinn í dag verður því lengi í minnum hafður sem dagurinn þegar ég byrjaði formlega á því að skrifa doktorsritgerðina mína.
Vinnuheiti ritgerðarinnar er "bs-thesis". Skammstöfunin "bs" er sveigjanleg. Hvernig ég túlkana hana fer eftir því í hvernig skapi ég er. Á góðum dögum mun hún standa fyrir "brain storming". En miðað við gang mála undanfarna mánuði mun hún oft standa fyrir "bull shit". Þegar allt er yfirstaðið mun hún þó vonandi standa fyrir "börkur sigurbjörnsson".
Annars var fæðing þessa skráasafns afar erfið. Undanfarna þrjá mánuði hef ég af og til gripið í að búa til ritgerðarplan. Eins og mín er von og vísa þá skipti ég um skoðun að meðaltali 2.78 sinnum á dag varðandi það hvernig ég vil taka á ritgerðarefninu. Það endaði með því að ég gat ekki með góðu móti komið mér saman um það hvaða tökum ég tæki efnið. Í stað þess að skrifa ritgerðarplan þá endaði ég uppi með all nokkur ritgerðarplön.
Til þess að lenda ekki í illdeilum við sjálfan mig þá lagði ég fram málamiðlunartillögu. Eftir langar og strangar samningaviðræður greiddi ég atkvæði um tillöguna og samþykkti hana með fimm atkvæðum gegn þremur.
Málamiðlunartillagan gengur út á það að ég tek stærsta samdeili allra ritgerðartillaganna. Hann geri ég að frumþætti ritgerðarinnar. Ég get byrjað að skrifa þann þátt áður en ég tek lokaákvörðun um aðra þætti ritgerðarinnar.