Heimamenn eða Mannheimamenn
Fyrstu mánuðina eftir að ég flutti hingað til Barcelona blundaði í mér sú hugmynd að það gæti værið gaman að skella sér á handboltaleik. Ég viðraði þessa hugmynd við nokkra vinnufélaga og aðra félaga með það fyrir augum að fá einhvern með mér á leik. Ég nennti ekki einn. Viðbrögðin sem ég fékk við þeirri hugmynd minni voru að jafnaði eitthvað á þessa leið: Handbolti, er það einhvers konar íþrótt? Það leið því ekki á löngu áður en hugmyndin hætti að blunda í mér. Hún steinsofnaði.
Fyrir nokkrum misserum bættist þjóðverji í hóp vinnufélaga minna. Hugmyndin um hadboltaleik vaknaði af værum svefni og byrjaði að blunda. Ég viðraði hugmyndina á ný og í þetta sinn var henni ekki tekið fálega. Bæði vinnufélaginn og hans kærasta höfðu áhuga. Stefnan var því tekin á Palau Blaugrana.
Við fórum þrjú saman í höllina í gær. Við karlarnir vorum klæddir þjóðbúningi Katalóníu — röndóttum blá-vínrauðum íþróttabolum með skjaldarmerki Barça á brjóstinu. Heimamenn í FB Barcelona Borges tóku á móti Mannheimamönnum í Rhein-Neckar Löwen.
Strax í upphafi leiks varð mér ljóst að leikurinn yrði tilfinningalega flókinn. Ég gat ekki gert upp við mig með hvoru liðinu ég ætti að halda. Katalóníubúinn og Barçastuðningsmaðurinn innra með mér voru sammála um að ég ætti að halda með Barça. Íslendingurinn í mér sagði að það kæmi ekkert annað til greina en að halda með nýju lærisveinum Gumma Gumm. Ég fór milliveginn — hélt með heimamönnum á yfirborðinu en vonaði innst inni að Mannheimamennirnir ynnu.
Leikurinn var æsispennandi. Barça og Löwen skiptust á að hafa forystu í leiknum. Ég klappaði í hvert sinn sem Barça skoraði og laumaðist einnig til þess að klappa í hvert sinn sem Ólafur Stefánsson skoraði fyrir Löwen.
Þegar upp var staðið voru það Mannheimamennirnir sem báru sigurorð af heimamönnunum. Ég var því súr á svip en glaður í hjarta þegar ég yfir gaf Blá-vínrauðu höllina.