Sundknattleikur (taka 2) ?>

Sundknattleikur (taka 2)

Ég fór á mína aðra sundknattleiksæfingu í kvöld. Ég fór á mína fyrstu æfingu í júní síðastliðunum. Þá gekk nú ekki betur en svo að ég sprakk á limminu eftir upphitunina og gat ekki spilað neitt. Í þetta skipti var mér lofað að það væri enginn þjálfari á svæðinu og því fælist æfingin bara í að kasta bolta á milli og leika sér. Ég ætti að geta ráðið við það.

Það var fámennt á æfingunni og við ákváðum að synda í tíu mínútur til að hita okkur upp og fara svo að leika. Í þetta sinn gekk upphitunin vel enda ekki mikið mál að synda í rólegheitum fram og til baka í tíu mínútur. Eftir þessa léttu og góðu upphitun kom hins vegar babb í bátinn. Þjálfari mætti á svæðið. Ekki þó sundknattleiksþjálfari. Heldur sundþjálfari.

Hann tók upp á því að fara að kenna okkur skriðsund. Sem betur fer var honum mest í mun að kenna okkur rétta tækni. Ég gat því komist upp með að halda áfram að synda í rólegheitum svo framarlega sem ég einbeitti mér að sundtækninni. Úr varð hin besta æfing. Ég lærði heilmikið. Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri með svona agalega lélega skriðsundstækni.

Eftir skriðsundskennsluna var kominn tími á smá boltaleik. Þar sem að við vorum ansi fáir á æfingunni þá byrjuðum við á að skjóta á mark. Mér hafði aldrei komið til hugar hversu erfitt það getur verið að troða marvaðann og kasta bolta. Ég var gersamlega uppgefinn eftir skamma stund. Þegar kom að því að spila smá þá bauðst ég til að vera í marki þar sem ég hélt að það væri auðveldara en að spila úti. Ég þyrfti nefnilega að hreyfa mig minna.

Varkvarðslan reyndist erfiðari en mig grunaði. Eitt helsta vandamálið var að ég sá ekki glóru. Það var ekki einungis gleraugnaleysi um að kenna. Einnig var ég svo þreyttur á að troða marvaðann að ég gat var haldið hausnum upp úr vatninu. Hvað þá að ég hefði orku í að halda höndunum uppi. Það fór því lítið fyrir markvörslunni hjá mér. Ég tók ekki við mér fyrr en einhver hrópaði "úrslitamark". Þá var eins og ég fengi smá adrealín kikk. Ég byrjaði að verja eins og berserkur. Ég varði hvorki meira né minna en tvö skot áður en var að hirða boltann úr netinu í síðasta sinn.

Það fór því svo að ég hélt lengur út á minni annarri sundknattleiksæfingu en minni fyrstu. Það má þó líklega deila um það hvort að vera mín í markinu geti talist sem þáttaka í leiknum. Ég var þó allavega á svæðinu. Einhvers staðar. Undir yfirborðinu.

Skildu eftir svar