Fyrirheitna landið
Klukkan er núna 19:30 PST (4:30 EST). Ég er enn vakandi. Ég á þó í mesta basli með að halda augunum opnum. Búinn að vera á fótum síða 6:30 EST í morgun. Ætla að reyna að þrauka í allavegana hálftíma lengur. Mikið er gott að hafa þrálaust net inni á hótelherbergi.
Mér tókst að komast áfallalaust á hótelið í Bellevue, WA. Eftir að hafa tekið upp úr töskunni taldi ég best að yfirgefa hótelherbergið. Var hræddur um að sofna. Þess í stað heimsótti ég eitt þekktasta fyrirtæki Seattle, Starbucks. Eftir að hafa rennt niður einum double-tall-skimmed-latte ákvað ég að athuga hvot það væri rétt sem kýrnar segðu. Er grasið grænna handan hraðbrautarinnar? Ég fór yfir-um og leit fyrirheitna landið augum. Handan hraðbrautarinnar lá Redmond. Höfuðstöðvar Microsoft.
Eftir að hafa villst í smá stund á Microsoft campusnum þá tókst mér að finna rétta byggingu. Þó ég hafi rambað á réttan stað þá var ég á röngum tíma. Rúmlega hálfum sólarhring of snemma á ferð. En nú veit ég allavegana hvert ég á að fara í fyrramálið.