Hundrað kílómetrar
Á um það bil eins og hálfs árs fresti tek ég mig til og byrja á heilsuátaki. Ég lýsi hreyfingarleysinu stríði á hendur. Ég kaupi mér nesti og nýja hlaupaskó og fer reglulega út að hlaupa. Þessi heilsuátök mín eiga það til að verða heldur skammvinn. Skammhlaup. Stríðið hefst með tveggja til þriggja vikna leiftursókn gegn hreyfingarleysinu. Stuttu síðar er skrifað undir friðarsamninga. Nýju hlaupaskórnir eru settir inn í skáp og ég legst upp í sófa og borða nestið.
Laugardaginn 18. febrúar 2006 byrjaði ég á enn einu heilsuátakinu. Nú, sjö vikum síðar, stendur átakið enn yfir. Undanfarnar sjö vikur hef ég farið reglulega út að hlaupa. Þrisvar í viku. Í morgun náði ég þeim merka árangri að hlaupa hundraðasta kílómetra ársins. Alls er ég búinn að hlaupa hundraðogeinnkommaátta kílómetra frá því í febrúar. Það er svo sannarlega ekki friðvænlegt á heilsuátakasvæðunum þessa stundina.