Útlendingur frá framandi menningarheimi ?>

Útlendingur frá framandi menningarheimi

Í tilefni þess að ég hef nú búið í Hollandi í rúm fimm og hálft ár þá fannst mér við hæfi að leggja mat á það hversu vel ég hef náð að aðlagast hollensku samfélagi. M.ö.o. þá var ég í dag leiður á ritgerðarskrifum og ákvað því eyða nokkrum mínútum í að taka persónuleikapróf á netinu.

Prófið nefnist De Nationale Inburgering Test og er eftirlíking prófs sem lagt er fyrir útlendinga sem sækja um hollenskt ríkisfang. Prófinu er ætlað að mæla það hversu vel útlendigar hafa aðlagast hollensku samfélagi. Nái fólk ekki lágmarkseinkunn — 5,5 — þá getur fólk ekki búist við að fá hollenskt ríkisfang.

Því er skemmst frá að segja að ég stóðst ekki prófið. Ég fékk 4,6. Sem dæmi um spurningu sem ég klikkaði á var:

Vingjarnlegu nágrannarnir þínir eignast barn. Hvað gerir þú?

  1. Bankar uppá og kíkir á barnið
  2. Bíður í nokkra daga, bankar uppá og kíkir á barnið
  3. Sendir foreldrunum póstkort

Mér fannst við hæfi að bíða í nokkra daga, banka svo uppá, heilsa upp á nýbakaða foreldra, og kíkja á krílið. Slíkt athæfi er hins vegar ekki við hæfi hér í landi. Ég hefði átt að láta mér nægja að senda póstkort.

Nú er bara að drífa sig í að klára doktorsritgerðina og flytja í burtu. Flytja á stað þar sem ég betri möguleika á að aðlagast samfélaginu.

One thought on “Útlendingur frá framandi menningarheimi

Skildu eftir svar