Lygalestur
Eftir misheppnaðan mars þá gekk það lygilega vel að standa við áætlun mína um að klára þrjár bækur í apríl mánuði. Þessi árangur skýrist að miklu leyti af því að hann er lygi. Þó ég sjái mig tilneyddan til þess að hagræða sannleikanum eilítið, þá er ég glaður yfir því að hafa náð markmiði mínum um að leggja þjár bækur til hliðar í apríl.
Fyrsta bók mánaðarins var hljóðbókin In the Plex: How Google Thinks, Works, and Shapes Our Lives eftir Steven Levy. Bókin segir sögu Google frá upphafi til dagsins í dag. Farið er yfir bakgrunn stofnendanna og hvernig lífssýn þeirra endurspeglast í anda fyrirtækisins.
Sem doktor í leitarvélafræðum og áhugamaður um sprotafyrirtæki þá höfðaði fyrsti hluti bókarinnar mest til mín, þar sem hann fjallar um það hvernig tveir doktornemar í leitarvélafræðum breyta rannsóknarverkefni sínu í eitt verðmætasta tölvufyrirtæki heims.
Seinni hluti bókarinnar fjallar meðal annars um þá hugmyndafræðilegu erfiðleika sem fyrirtækið stóð frammi fyrir við það að hasla sér völl í Kína. Einnig er farið yfir viðskiptafléttur í tengslum við yfirtökur á fyrirtækjum og samskipti fyrirtækisins við samkeppnisyfirvöld vestan hafs sem austan. Þó þessi hluti sé vissulega mikilvægur í sögu fyrirtækisins þá höfðaði hann síður til minna hugðarefna.
Í heildina litið þá er bókin ágætis dæmisaga um það hvernig rannsóknarverkefni í háskóla getur undið upp á sig umbreyst í stórfyrirtæki. [ritdómur á goodreads]
Önnur bókin sem ég lagði frá mér í mánuðinum var El lobero y otros cuentos de Chiloé eftir Beatriz Concha. Ég lagði bókina frá mér eftir að hafa lesið megin söguna um Úlfaveiðimanninn (El Lobero) en sleppti því að lesa aðrar sögur frá Chiloé. Sagan um veiðimanninn var svosem ágætis lesning sem tvinnaði saman skáldskap og þjóðsögur frá Chiloé eyju. Skemmtanagildið var hins vegar ekki nóg til þess að hvetja mig til þess að lesa aðrar sögur bókarinnar. Að minnsta kosti ekki um sinn.
Þriðja bók mánaðarins var Skáldsaga um Jón og hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur og undirbjó komu hennar og nýrra tíma eftir Ófeig Sigurðsson. Ég læt það vera að lýsa þræði bókarinnar að öðru leyti en því að sagan segir sögu Jóns Steingrímssonar. Titillinn segir svo nokkurn veginn allt sem segja þarf.
Ófeigi ferst vel úr hendi að skrifa bréf Jóns. Hann segir skemmtilegar sögur af skemmtilegum mönnum á borð við Skúla fógeta og þá félaga Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson. Efnistökin eru afar skemmtileg þar sem átjándualdar saga er tekin og uppdiktuð á máli nútímans. [ritdómur á Goodreads]