Janúarlestur ?>

Janúarlestur

Ég hef verið óánægður með það undanfarið hversu óduglegur ég hef verið við bókalestur. Til þess að gera bragarbót í þeim efnum ákvað ég í ársbyrjun að hrinda af stað lestrarátaki og einsetja mér að klára að minnsta kosti þrjár bækur á mánuði út árið 2013.

Til þess að halda sjálfum mér við efnið þá taldi ég best að hóta sjálfum mér refsingu ef ég stæði ekki við fyrirheitið. Eftir talsverða íhugun þá ályktaði ég að hæfileg refsing fyrir brot af þessu tagi væri allherjar niðurlæging á almannafæri. Þess vegna hef ég ákveðið að skýra mánaðarlega frá gangi mála á dagbókinni. Þannig getur alþýða manna hlegið að mér ef ég stend ekki við lestrarplanið.

Eins og oft vill verða í átökum sem þessum þá hefjast þau af krafti. Í janúar náði ég takmarki mínu og kláraði þrjár bækur. Ég verð þó að viðurkenna að ég las megnið af fyrstu bókinni í desember en á móti kemur að ég komst langt með að klára fjórðu bókina. Það má því með nokkrum sanni segja að ég hafi bæði lesið og klárað þrjár bækur í mánuðinum.

Fyrsta bókin sem ég kláraði var Illska eftir Eirík Örn Norðdahl. Í heild líkaði mér sagan ágætlega, svo fremi sem hægt er að líka við illsku. Lesturinn var þó helst til köflóttur þar sem skiptust á góðir kaflar og slakir. Helsti ókosturinn fannst mér að bókin var allt of löng. Á hinn bóginn verð ég að viðurkenna að hefði bókin verið hæfilega löng þá hefði ég klárað hana í desember og ekki getað sett hana á listann yfir bækur kláraðar í janúar og þar með hugsanelga ekki staðið við heitið um að lesa þrjár bækur á mánuði. [ritdómur á goodreads]

Önnur bók janúarmánaðar var What I Talk About When I Talk About Running eftir Haruki Murakami. Sem bæði áhuga-rithöfundur og áhuga-hlaupari þá bar ég miklar væntingar í brjósti um að bókin myndi umturna sýn minni á heiminn. Hún gerði það þó ekki en var ágætis lesning. [ritdómur á goodreads]

Þriðja og síðasata bók mánaðarins var Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur. Sagan er skemmtileg og persónurnar bæði áhugaverðar sem sannfærandi. Það tók mig þó talsverðan tíma að venjast því hvernig sögþráðurinn flakkaði fram og til baka í tíma. Það vandist þó upp úr miðri bók og ég gat klárað bókina án varanlegrar brenglunar á tímaskyninu. [ritdómur á goodreads]

Nú í upphafi febrúar lítur vel út með það að ég nái að halda dampi þennan mánuðinn. Ég hef þegar lokið við fyrstu bók mánaðarins og er með nokkrar á náttborðinu. Meira um það að mánuðinum liðnum.

2 thoughts on “Janúarlestur

Comments are closed.

Comments are closed.