Af áramótaheitum ?>

Af áramótaheitum

Það var í sjálfu sér ekki mikill metnaður í áramótaheitunum mínum fyrir síðasta ár. Ég hugðist einungis gera þrennt á árinu: gefa út bók, selja hana í nokkrum milljónum eintaka og setjast í helgan stein. Þar sem að annað heitið var byggt á því fyrsta og það þriðja lauslega byggt á því öðru þá ákvað ég að byrja á því að ráðast á garðinn þar sem hann var lægstur og gefa út bók.

Twins

Bókaútgáfan gekk bara nokkuð vel. Handritið var þegar tilbúið í upphafi árs og ég þurfti því bara að endurskrifa það nokkrum sinnum á fyrri hluta ársins, ráða prófarkalesara og setja bókina upp í nokkrum útgáfum. Í byrjun ágúst kom síðan smásagnasafnið 999 Erlendis út á íslensku, sem og enskur tvíburi þess, 999 Abroad. Bæði söfnin voru gefin út sem kilja og rafbók. Ég gat því strikað yfir fyrsta áramótaheitið á listanum.

Áramótaheitið um að selja nokkrar milljónir eintaka náðist hins vegar einungis að hálfu leyti á árinu. Ég stóð við nokkra hlutann en ekki milljóna hlutann. Það er að segja, ég náði að selja nokkrar bækur. Upphaflega sölumarkmiðið var byggt á þeirri forsendu að ég seldi mestmegnis enskar rafbækur. Þegar upp var staðið þá seldi ég 70 bækur á árinu, 67% þeirra voru á íslensku og 80% á kiljuformi. Það má því segja að það hafi verið viss forsendubrestur fyrir áramótaheitinu.

Þar sem að áramótaheitið um að setjast í helgan stein var að talsverðu leyti háð því að ég næði að selja bókina mína í nokkrum milljónum eintaka þá náði ég ekki heldur að standa við það heit að öllu leyti. Það má þó segja að ég hafi staðið við það að nokkru leyti þar sem ég minnkaði við mig vinnu seinni hluta ársins og var duglegur við að taka mér sumarfrí — bæði norðurhvels sumarfrí og suðurhvels sumarfrí. Ég vil því meina að það hafi einungis verið stigsmunur en ekki eðlismunur á heitinu og rauninni. Ætli það megi því kannski ekki segja að ég hafi sullað í vígðu vatni í stað þess að setjast í helgan stein.

Þegar allt kemur til alls þá er ég afar sáttur við framgang áramótaheita ársins 2012. Ætli ég hafi ekki verið á svipuðu róli og meðal völva vikunnar. Og þar sem að mér tókst svona ágætlega að standa við áramótaheit síðasta árs þá hef ég ákveðið að setja mér sömu markmið fyrir þetta ár. Á árinu 2013 ætla ég að gera þrennt: gefa út bók, selja hana í nokkrum milljónum eintaka og setjast í helgan stein.

Comments are closed.