Svartavatn ?>

Svartavatn

Ég fékk mér heitt súkkulaði í Svissnesku Nýlendunni (Colonia Suiza) eftir að hafa lokið tveggja daga göngutúr upp að Svartavatni (Laguna Negra) í Nahuel Huapi þjóðgarðinum í argentínska hluta Norður Patagóníu.

waterfall

Gangan hófts daginn áður í útjaðri Svissnesku Nýlendunnar. Ég þrammaði í rólegheitunum eftir vel merktri leið í gegnum fallegan skóginn. Það má segja að ég hafi sniglast áfram með húsið mitt bakpokann minn á bakinu. Leiðin var í sjálfu sér ekkert strembin en þar sem ég var með um fimmtán kíló meðferðis þá tók bakpokinn aðeins í og ég þurfti að stoppa reglulega til þess að ná andanum taka myndir.

mountains

Leiðin lá upp dal meðfram Goye ánni með mikilfengleg fjöll til beggja handa. Veðrið var bæði gott og slæmt. Ég var ánægður með að hafa skýin til þess að verja mig gegn sólinni sem hefði gert gönguna erfiðari. Á hinn bóginn hefði ég alveg verið til í að hafa heiðskýrt á köflum til þess að fá betri birtu til myndatöku. Það verður víst ekki bæði haldið og sleppt.

Laguna Negra

Eftir fjögurra tíma göngu kom ég upp að Svartavatni sem er í lítilli skál milli tignarlegra fjalla. Þó ég hefði orku og vilja í að ganga lengra þann daginn þá ákvað ég frekar að slaka á í fjallaskálanum við vatnið. Ég ályktaði að betra væri að fara í morgungöngu daginn eftir þar sem verðurspáin var betri fyrir þann daginn. Ég dundaði mér því fram eftir degi við að lesa, skrifa og rabba við aðra skálafélaga; tvo skálaverði, tvo þjóðgarðsverði sem voru á göngu milli skála, þrjá unglinga frá Bariloche, franskan göngugarp og argentískan ljósmyndara.

footsteps

Seinni daginn minn við Svartavatn var veðurspáin betri en verðrið verra. Kaldur sunnanvindurinn blés niður í dalinn og fjallstopparnir voru flestir huldir skýjum. Þetta var svolítið annað en sólskinið sem hafði verið í spákortunum. Ég lét hins vegar veðrið ekki á mig fá og fékk mér tveggja tíma göngutúr upp á nálægan fjallstopp. Fyrsti hluti leiðarinnar fólst í því að ganga í snjóskafli umhverfis vatnið. Snjóskaflinn gekk beinustu leið niður í Svartavatn. Það var eins gott að skrika ekki fótur því þá hefði leiðin legið beinustu leið eftir ísilagðri rennibraut niður í ískalt vatnið. Gangan var áhættunnar virði því útsýnið af fjallstoppnum var afar fallegt, jafnvel þótt hæstu tindar væru huldir skýjum.

Að lokinni morgungöngunni strengdi ég bakpokann á mig, kvaddi Svartavatn og íbúa þess og hélt ferð minni til baka niður til svissnesku nýlendunnar.

Comments are closed.