Smá krókódílar og risa mauraætur
Ég stökk á fætur þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan hálf-sex og gerði mig klárann fyrir fyrsta daginn í Pantanal náttúruverndarsvæðinu. Eftir morgunmatinn var haldið í bátsferð á Svartá (Río Negro) — ánna sem liggur um lendur búgarðsins Barranco Alto.
Við ánna er blómlegt dýralíf. Það er allt morandi í cayman smá krókódílum og fuglum í öllum stærðum, litum og gerðum. Við sáum einnig heilmikið af capybara, stærsta nagdýri heims. Á gönguferð skammt frá árbakkanum sáum við fersk spor eftir cacareco, brasilískan nashyrning, en hins vegar hvorki tangur né tetur af nashyrningnum sjálfum. Leisögumaðurinn kenndi því í gamni sínu um að við hefðum verið of upptekin við að gæða okkur á ávöxtum sem skógurinn hafði upp á að bjóða.
Leiðsögumaðurinn var afar fróður um dýra og plönturíkið. Hann fræddi okkur til dæmi um það hvaða ávexti við gætum borðað og úr hvaða ávöxtum við gætum kreyst augndropa. Hann fræddi okkur einnig um það hvernig mætti nota afurðir pálma á margan hátt, s.s. til þess að búa til drykkjarmál eða svipu til þess að fæla í burt moskítóflugur.
Undir lok siglingarinnar lentum við í eltingaleik við risaotur sem stakk höfðinu af og til og hér og þar upp úr vatninu til þess að sríða okkur, áður en hann ákvað síðan að stinga okkur af niður ánna. Við sáum einnig smærri otur sem var vingjarnlegri og viljugri til þess að sýna sig.
Eftir hádegið fórum við í vettvangsferð með líffræðingi sem er að vinna að doktorsverkefni sínu sem felst í að rannsaka atferli risa mauraæta á Pantanal svæðinu. Hún safnar gögnum með því að setja upp sjálfvirkar myndavélar vitt og breytt um svæðið sem tilheyrir búgarðinum, jafnframt því sem hún fylgist með atferli dýranna í návígi. Myndavélarnar eru búnar bæði hreyfi- og hita- skynjurum og taka myndir þegar eitthvað heitt gengur, hleypur eða flýgur framhjá. Vettvangsferð dagsins var ekki tengd myndavélunum heldur var ekið um landsvæði búgarðsins og reynt að komast í návígi við risa mauraætur.
Þó svo að bíltúrinn hafi verið farinn undir því yfirskini að fylgjast með atferli mauraæta þá var stoppað til þess að skoða önnur dýr sem urðu á vegi okkar og líffræðingurinn fræddi okkur um þau og atferli þeirra. Hún tók það þó sérstaklega fram í upphafi ferðarinnar að tilgangurinn væri ekki að smala köttum. Það plan varð hins vegar að engu þegar við sáum púmu bregða fyrir og upp hófst eltingaleikur til þess að reyna að fá betra sjónarhorn á köttinn.
Þegar upp var staðið þá sáum við hins vegar hvorki meira til púmunnar, né heldur sáum við nokkra risa mauraætu. Við sáum hins vegar fjölbreytt fuglalíf, dádýr, capybara, villigelti, skjaldböku og eina brasilísaka kanínu.