São Paulo Tvíæringurinn ?>

São Paulo Tvíæringurinn

Fyrsti morguninn minn í São Paulo hófst á því að heilsa upp á gamla kunningja. Melónu og papaya. Það var einmitt í Brasilíu fyrir sjö árum síðan, í Lençois þjóðgarðinum vestan við Salvador de Bahia, sem ég sannfærðist um ágæti þess að borða ávexti í morgunmat.

black & white

Eftir morgunmatinn hófst ég handa (eða réttara sagt fóta) við að endurnýja kynni mín af borginni. Ég rölti, í gegnum rigningarúðann, niður Avenida Paulista og alla leið að Parque do Ibirapuera, sem er almenningsgarður með grasflötum, tjörnum, síkjum, göngustígum, hjólastígum og all nokkrum listasöfnum. Á göngunni um garðinn varð mér á ný hugsað til baka þegar ég heimsótti garðinn fyrir sjö árum síðan og sá svartan svan í fyrsta sinn.

Floorpiece (yellow)

Ég eyddi megninu af deginum í að skoða São Paulo Tvíæringinn — sýningu á samtímalist sem eins og nafnið bendir til er sett upp annað hvert ár. Ég get nú ekki sagt að ég sé mikill kunnáttumaður á sviði myndlistar en ég er mikill áhugamaður um stór og auð rými. Ég kann því afar vel við listasöfn sem slík og það spillir einnig ekki fyrir að hafa málverk, ljósmyndir og aðra listmuni á víð og dreif um svæðið. Það átti við um list dagsins eins og aðrar listir að sum verkin höfðuðu til mín en önnur ekki. Hápunktar sýningannar voru perúskar og hollenskar ljósmyndir og leikur að ljósi og skugga eftir breskan listamann. Ég var einnig hrifinn af verkum Íslendinganna tveggja sem ég sá á sýningunni.

Brahma Black

Eftir að listunum lauk þá tók rigningin við. Það bætti smám saman í rigninguna er leið á daginn og regnjakkinn sem ég var svo forsjáll að taka með mér kom því að góðum notum. Ég þrammaði í gegnum rigninguna til baka nokkurn vegin sömu leið og ég kom. Ég gaf mer þó tíma frá þramminu til að setjast niður á veitingastað á Avenida Paulista, fá mér bjór, setja nokkrar pælinga á blað og virða fyrir mér mannlífið.

Eftir smá hvíld á hótelinu endaði ég daginn á því að gæða mér á gómsætri brasilískri steik.

Comments are closed.