Piranha fiskar og vampíru leðurblökur ?>

Piranha fiskar og vampíru leðurblökur

Líkt og í gær var dagurinn í dag tekinn snemma. Klukkan fimm árdegis lögðum við af stað akandi með kanóa í eftirdragi. Um það bil tíu kílómetrum ofan við Barranco Alto búgarðinn renndum við kanóunum út í Svartá og héldum af stað niður ánna.

Það var svolítið sérstök tilfinning að róa niður kaffibrúna ánna með smá krókódíla svamlandi í kring og vitandi af piranha fiskum syndandi undir yfirborðinu. Þó svo að bæði krókódilar og piranha fiskar séu tannbeittar skepnur þá þurftum við mannskepnurnar í kanóunum ekki að hafa miklar áhyggjur af því að lenda í kjafti þeirra þar sem að við erum talsvert stærri en bæði smá krókódílarnir og piranha fiskarnir og því heldur ógnvekjani í þeirra augum þó við höfum ekki eins beittar tennur.

Á leiðinni niður ánna nutum við þess að hlusta á og fylgjast með fuglalífinu við ánna. Við stukkum á land nokkrum sinnum til þess að teygja úr fótunum og fá okkur morgunmat eða vatnssopa. Á ströndinni þar sem við borðuðum morgunmatinn sáum við fersk spor eftir jagúar. Við urðum ekki vör við köttinn sjálfan en það var gaman að vita af honum í nágrenninu.

Skammt frá Barranco Alto búgarðinum tókum við skrefinu lengra í að blanda geði við krókódílana og piranha fiskana. Við fengum okkur smá sundsprett í ánni. Sundsprettur er kannski ekki alveg besta lýsingin því að áin var ekki dýpri en það að vatnið náði okkur varla í mitti og því áttum við bágt með að synda en létum okkur þess í stað fljóta með straumnum milli þess sem við óðum til baka upp ánna. Það var nokkuð sérstök tilfinning að svamla í ógagnsærri ánni og finna fyrir því að nartað væri í skinnið af og til. Þó svo að ég sæi ekki dýrin sem nörtuðu þá hef ég það fyrir satt að það hafi hvorki verið krókódílar né piranha fiskar sem læstu tönnum í holdið, heldur smáfiskar ekki ósvipaðir þeim sem fólk borgar fúlgur fjár til þess að láta narta af sér dauðar húðfrumur í fótabaði.

Um eftirmiðdaginn var á ný ekið um landareignina á jeppa til þess að skoða dýralífið. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að jeppinn festist í einni ánni og var því bíltúrnum breytt í göngutúr um stund á meðan kallað var á traktor til þess að draga bílinn á þurrt.

Við gengum að nálægu eyðibýli sem leðurblökur höfðu lagt undir sig. Tvær mismunandi tegundir leðurblaka bjuggu hvor í sínu húsinu. Annars vegar voru það leðurblökur sem nærast á plöntum eða skordýrum. Hins vegar voru það blóð drekkandi vampíru leðurblökur. Við litum inn í bæði húsin. Heimkynni fyrri leðurblöku tegundarinnar voru bara frekar snyrtileg en hús vampíru leðurblakanna var illa lyktani með blóðslettur upp um alla veggi.

Þegar við höfðum heimsótt leðurblökurnar beið bíllinn okkar á planinu við eyðibýlið og við héldum bílferðinni áfram í leit að dýrum. Í ljósaskiptunum stoppuðum við við stöðuvatn og skoluðum sólarlaginu niður með bjórsopa. Á leiðinni til baka á búgarðinn héldum við dýraskoðun áfram með hjálp ljósgeisla. Markverðustu dýrin sem álpuðust inn í ljóskeiluna voru tvær púmur sem við sáum læðast meðfram skógarjaðrinum handan við stórt engi.

Comments are closed.