Í fótspor Maradona
Eftir morgunkaffið fetaði ég í fótspor Diego Armando Maradona og fékk mér göngutúr um La Boca hverfið í Buenos Aires. Líkt og fótboltakappinn þá hefur La Boca hverið sínar björtu hliðar sem og sínar skuggahliðar. Hverfið var upprunalega byggt fyrir ítalska verkamenn og er eitt af fátækari hverfum borgarinnar. Hluta hverfisins er vel haldið við og er eins konar Árbæjarsafn með skrautlega máluðum, uppgerðum húsum, veitingastöðum, minjagripaverslunum, sölubásum og hverju öðru sem á að höfða til ferðamanna. Aðrir hlutar hverfisins eru heimili einna fátækustu íbúa borgarinnar og ferðamönnum ráðlagt að halda sig utan þeirra. Þess á milli eru svæði sem eru þess á milli — hvorki glansandi sem safn né að hruni komin. Á slíku svæði búa gestgjafar mínir.
Ég rölti fyrst um ferðamannahlutann. Ég var sem betur fer það snemma á ferð að það voru fáir aðrir ferðamenn á staðnum. Ég gat því notið litadýrðarinnar í rólegheitum og rabbað við heimamenn sem gerðu sölubása sína tilbúna fyrir daginn. Því næst lá leiðin út fyrir ferðamannasvæðið og inn á huggulegt hverfis-kaffihús. Við all nokkur borð sátu ellilífeyrisþegar og drukku morgunkaffið, lásu blöðin og horfðu á morgunfréttatímann í sjónvarpinu. Við annað borð sátu verkamenn og ræddu málin. Við mitt borð sat ég með kaffibolla í annarri hönd og penna í hinni. Það var komið að því að skrifa lokaorðin um Buenos Aires þar sem dvöl minni í borginni var að ljúka að þessu sinni.
Lokaorð mín um Buenos Aires eru á þá leið að borgin er ekki borg til þess að heimsækja sem túristi. Buenos Aires er borg til þess að búa í — hvort sem það er í nokkra daga, nokkrar vikur, nokkur ár eða heila ævi. Borgin er heillandi staður með heillandi fólki. Þangað mun ég snúa aftur einhvern tíman.