Foz do Iguaçu ?>

Foz do Iguaçu

Um miðjan morgun renndi rútan inn á umferðarmiðstöðina í Foz do Iguaçu og ég gerðist aftur ferðamaður eftir að hafa verið í fjögurra daga brúðkaupsveislu í borginni Campo Grande í Brasilíu. Rútuferðin frá Campo Grande hafði tekið 14 tíma — sem ég svaf af mér all flesta þó svefninn hafi hvorki verið djúpur né samfelldur. Réttara sagt þá svaf ég fyrri hluta rútuferðarinnar og einnig seinasta hlutann. Um miðbik ferðarinnar var ég andvaka sökum óvissu.

Skömmu eftir að rútuferðin hófst þá setti ég upp smá reikningsdæmi. Ég vissi klukkan hvað lagt var af stað, ég vissi klukkan hvað ég ætti að skipta yfir í aðra rútu, ég vissi hvenær ég kæmi á leiðarenda og ég vissi hversu lengi ferðin tæki. Út frá þessum gögnum gat ég ályktað að upphafsstaður ferðarinnar og lokapunktur hennar væru hvor í sínu tímabeltinu. Hins vegar gat ég ekki leitt út í hvaða tímabelti ég þyrfti að skipta um rútu. Ég hélt mér því vakandi í nokkra tíma í kringum mögulega skiptipunkta.

Cataratas do Iguaçu

Það var ágætt að ég lagði í þessa reikninga því það kom á daginn að skiptistöðin var ekki í sama tímabelti og upphafsstaðurinn. Ég steig því af vagninum klukkutíma áður en ég hafði gert ráð fyrir. Það var einnig gott að vera vakandi þegar að skiptistöðinni kom því að hún var ekki tilkynnt með allt of miklum látum. Feginn að reikningsdæmið hafði gengið upp þá gat ég notað seinni hluta morgunsins til þess að finna mér gistingu og hádegismat.

Eftir hádegismatinn tók ég mér far með strætisvagni til þess að líta á Iguazú fossana frá brsilíska bakkanum. Fossarnir voru talsvert tilkomumiklir að sjá en ég varð samt við fyrstu sýn fyrir talsverðum vonbrigðum. Ég hafði ímyndað mér að fossarnir væru miklu mikilfenglegri. Hins vegar, þegar ég færði mig upp eftir árbakkanum og inn í Djöflagljúfur (Garganta del Diablo) fann ég smám saman fyrir kraftinum í fossunum. Þeir urðu tilkomumeiri i mínum augum en samt talsvert fjarri því sem ég hafði ímyndað mér.

80

Þrátt fyrir að fossarnir höfðu ekki staðið undir mínum villtustu væntingum þá var ég ánægður með daginn. Ég hafði notið náttúruaflanna í sinni grófustu mynd í formi kraftmikilla vatnsfalla og í sinni blíðustu mynd í formi fallegra fiðrilda sem flögruðu um svæðið.

Comments are closed.