Córdoba ?>

Córdoba

Rútan renndi inn á umferðarmiðstöðina í Córdoba um hálf-tíu leytið — einum og hálfum tíma á eftir áætlun — tæpum sólarhring eftir að lagt var af stað frá Puerto Iguazú. Þrátt fyrir að ferðin hafi verið löng þá leið tíminn hratt þar sem ég hafði ýmislegt fyrir stafni. Milli þess sem ég blundaði þá las ég í Ógnarmána Elí Freyssonar, skrifaði dagbókarfærslur fyrir dvöl mína við Iguazú fossana og rabbaði af og til við sessunaut minn.

Sessunautur minn var frá borginni Mendoza í vestur Argentínu — sem er að hans sögn ein fallegasta borg í Argentínu, ef ekki í öllum heiminum. Þar eru allir, að hans sögn, afar kurteisir, evrópskir og vingjarnlegir — þveröfugt við ókurteisu og vanþakklátur íbúa norðursins sem hann hvíslaði að mér að væru upp til hópa indjánar og frumbyggjar.

Mikið var ég feginn að vera að ferðast í burtu frá þessum óþjóðalýð — þó sjálfur hefði ég ekki orðið var við annað en velvild og kurteisi af hálfu norðanmanna. Mín reynsla var líklega byggð á einhvers konar misskilningi — ekki get ég farið að draga visku heimamannsins í efa!

Mér var síðar um daginn hugsað til sessunautar míns þegar betlarinn í Córdoba, evrópskur í útliti, hreytti í mig ókvæðisorðum þegar ég gaf honum bara fimm peseta. Það var svolítið annað viðmót heldur en þakkirnar og brosið sem ég fékk frá litla frumbyggjanum í Puerto Iguazú þegar ég gaf honum eina sneið af pizzunni minni.

Catedral de Córdoba

Ég byrjaði dvöl mína í Córdoba á því að rölta í kringum umferðarmiðstöðina og skoða götuheiti. Ég settist síðan inn á fyrsta barinn sem ég sá, pantaði mér kaffi og bar saman kort og götuheiti til þess að ná áttum og finna út í hvaða átt ég ætti að stefna til þess að finna miðbæinn. Sá ratleikur gekk vel og ég rambaði beinustu leið á aðal torg bæjarins.

Það sem eftir lifði morguns rölti ég um miðbæinn, milli þess sem ég settist niður til þess að fá mér kaffi eða matarbita — um leið og ég virti fyrir mér mannlífið í borginni. Mér líkaði afar vel við borgina. Hún er með evrópskara yfirbragð en aðrar borgir sem ég hef kynnst í Ameríku. Hún minnti mig á samblöndu af suður Spáni og norður Grikklandi. Það er talsvert um torg og göngugötur með líflegu mannlífi. Nákvæmlega sú uppskrift af borg sem heillar mig hvað mest.

Policia de la provincia

Eftir hádegismatinn skellti ég mér á safn minninganna — safn sem heldur uppi minningu þess fólks sem hvarf á dögum herstjórnarinnar á áttunda áratugnum. Safnið er staðsett í fyrrum híbýlum héraðslögreglunnar í Córdóba þar sem margir fanganna voru í haldi, pyntaðir og/eða teknir af lífi. Megin þema safnsins eru myndir af föngum herstjórnarinnar, auk þess sem saga nokkurra þeirra er sögð í máli. Safnið er afar áhrifaríkur minnisvarði um það að við megum ekki láta hugmyndafræðilegan ágrenning leiða okkur á braut ofbeldis.

Eftir safnið rölti ég áfram um miðbæinn og settist öðru hvoru niður á kaffihúsi, skrifaði ferðasögu og pælingar í minnisbókina mína, á milli þess sem ég saup á bjór. Eftir tvo bjóra og all nokkrar blaðsíður hélt ég göngu minni áfram norður frá miðbænum og heim til fyrrum vinnufélaga míns þar sem við höfðum mælt okkur mót eftir að hann var búinn í vinnunni.

Comments are closed.