Buenos Aires
Ég opnaði augun og horfði út um glugga rútunnar sem renndi inn í sólarupprásina og í áttina til Buenos Aires. Tuttugu mínútum fyrir sjö renndum við inn á umferðarmiðstöð sem var svo stór að það gat varla verið um annað að ræða en að við værum komin til höfuðborgarinnar. Ég hikaði eilítið áður en ég steig út úr rútunni og spurðist fyrir um það hvar við værum til þess að fullvissa mig um það hvort það gæti verið rétt að við værum á Retiro stöðinni í Buenos Aires fimmtíu mínútum á undan áætlun.
Ég byrjaði daginn á að rölta í áttina að Maí torgi. Það vor fáir á ferli aðrir en ég og síðustu náttuglurnar sem voru á leiðinni heim af djamminu. Ég gekk fram hjá talsvert af útigangsfólki sem svaf á gangstéttum auk þess sem það var nokkuð um að fólk svæfi í bílum sem lagt var við gangstéttarbrúnina.
Þegar í miðbæinn kom skimaði ég eftir því hvort ég sæi kaffihús sem væri opið svona snemma morguns. Ég kom í fljótu bragði ekki auga á neitt slíkt og rambaði því stefnulaust um miðbæinn. Eftir talsverða leit þá fann ég kaffihús sem var bæði opið og huggulegt. Ég settist því niður og fékk mér morgunmat.
Eftir morgunmatinn kom ég við í blaðasöluturni og keypti mér kort af borginni. Ég settist niður á gluggsillu við Maí stræti og hugsað mér að reyna staðsetja heimili gestgjafa minna á kortinu. Ég komst hins vegar fljótt að því að það var eins og að finna saumnál í heystakki. Borgin var afar stór og ég hafði bara heimilisfangið til þess að styðjast við en hafði ekki hugmynd um það í hvaða hverfi gatan var. Ég ákvað þvi að reyna að finna kaffihús sem bauð upp á þráðlaust net svo ég gæti notað vefinn til þess að hjálpa mér.
Ég var vart staðinn upp þegar síminn hringdi. Það voru gestgjafar mínir sem voru að forvitnast um það hvar ég væri. Ég sagðist vera á leiðinni en hefði ekki hugmynd um það í hvaða átt ég ætti að stefna. Gestgjafinn sagði mér að hoppa upp í strætisvagn 64 við bleiku höllina og fara með honum inn í Boca hverfið. Hann sagði mér að á einhverjum tímapunkti færi ég fram hjá almenningsgarði og svo æki vagninn eftir Brown götu. Þar ætti ég að hoppa af vagninum við húsaröð 1300 því þá væri leiðarendi handan við hornið.
Eftir símtalið lagði ég af stað að bleiku höllinni og reyndi að festa leiðarlýsinguna mér í minni. 64. Boca. Garður. Brown númer eitthvað sem ég mundi ekki. Leiðarendi. Ég andaði djúpt og stökk inn í vagn 46. Þetta yrði eitthvað skrautlegt því að ég var strax farinn að gleyma leiðarlýsingunni.
Strætóferðin hófst ekki vel því að mér var tjáð að ég gæti annað hvort borgað með strætókorti eða tveggja peseta klinki. Þar sem ég hafði hvorugt undir höndum þá runnu á mig tvær grímur. Áður en ég gat ákveðið hvað ég ætti til bragðs að taka þá steig fram maður sem bauðst til þess að borga farið með sínu korti. Ég þáði það með þökkum og borgaði honum greiðann með tveggja peseta seðli.
Ég fékk mér sæti og einbeitti mér að næsta vandamáli sem var að átta mig á því hvenær ég ætti að stíga af vagninum. 64. Boca. Garður. Gata sem mundi ekki hvað hét. Númer sem ég mundi ekki. Leiðarendi. Eitthvað var leiðarlýsingin farin að styttast í minninu.
Ég tók upp kortið og hófst handa við það að reyna að átta mig á því hvar ég væri og hvert ég stefndi. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel það lukkaðist. Ég fann bæði götuna sem gestgjafar mínir bjuggu við og staðsetningu vagnsins. Ég reyndi því að njóta strætóferðarinnar, skimandi eftir skiltum með götuheitum og með vísifíngur á kortinu til þess að fylgja vagninum eftir á kortinu.
Vagninn ók fram hjá almenningsgarði og beygði inn í Brown götu. Alveg rétt. Nú mundi ég hvað gatan hét. Númerið mundi ég hins vegar ekki. Sem betur fer var leiðarendi næstum við enda Brown götu svo að ég gat beðið eftir að vagninn beygði fyrir horn og þá gæti ég stigið af honum við næsta stopp. Þaðan var leikur einn að finna rétta húsið.
Það sem eftir lifði dags rúntaði ég um borgina með gestgjöfum mínum. Við stoppuðum reglulega og fengum okkur göngutúr, mat og drykk. Við gengum um Boca hverfið, San Telmo og Recoleta. Við röltum um San Telmo markaðinn, kíktum á grafhýsi Evu Peron í Recoleta kirkjugarðinum, skelltum okkur á píanókonsert sem var hluti af djasshátíð borgarinnar, röltum einn hring í hinum kringlótta Parque Centenario, gengum eftir Madero höfninni og enduðum síðan daginn á kvöldmat í San Telmo.