Boca Juniors, bakpoki og marijuana
Ég var feginn að fá bakpokann minn í hendurnar á umferðarmiðstöðinni í Bariloche í Norður Patagóníu. Þegar ég afhenti hann starfsmanni rútunnar á umferðarmiðstöðinni í Buenos Aires tuttugu og einum tíma áður þá kvartaði starfsmaðurinn yfir því að ég væri í rangri treyju. Honum líkaði ekki við Boca Juniors treyjuna sem ég hafði keypt daginn áður á göngu minni um Boca hverfið í Buenos Aires. Þegar ég hafði komið mér fyrir í mínu sæti þá velti ég því fyrir mér hvort andúð starfsmannsins á treyjunni minni myndi kannski fá hann til þess að skilja bakpokann óvart eftir á pallinum í Buenos Aires.
Nokkrum kílómetrum utan við Bariloche fékk ég hins vegar að vita að bakpokinn minn var með í ferð. Lögreglan í Río Negro stoppaði rútuna og hundurinn þeirra fékk sér göngutúr um rútuna. Stuttu síðar var ég kallaður út úr rútunni og að farangursgeymslunni. Lögreglumaður spurði mig hvort þetta væri bakpokinn minn og ég játaði. Yfirheyrslan hélt svo áfram.
,,Reykirðu?´´ spurði lögreglumaðurinn.
,,Nei,´´ svaraði ég.
,,Ekki einu sinni marijuana?´´
,,Nei.´´
,,Ertu viss?´´
,,Eh, já.´´
,,Ertu með einhver lyf í pokanum?´´
,,Ekkert nema paracetamol.´´
,,En ekkert marijuana?´´
,,Nei.´´
,,Allt í lagi,´´ sagði lögreglumaðurinn að lokum. ,,Þú mátt fara.´´
Ég hikaði um stund og fór síðan aftur inn í rútuna. Mér hafði fundist þessi yfirheyrsla afar undarleg. Ef þau höfðu grun um að ég væri með eiturlyf í pokanum, af hverju leituðu þau ekki í honum í stað þess að spyrja mig ítrekað hvort ég reykti marijuana? Þegar ég hafði sest aftur í sætið mitt þá velti ég því fyrir mér hvort það gæti verið eitthvað í bakpokanum sem höfðaði til hunda. Það eina sem mér datt í hug var kexpakkinn sem ég keypti í Puerto Iguazú. Mér fannst það heldur ólíklegt og ályktaði að líklega væri lögregluhundinum í nöp við Boca Juniors og væri bara að gera at í mér.
Boca Juniors treyjan hélt síðan áfram að vekja athygli í Bariloche. Leigubílstjórinn sem vísaði mér veginn inn í bæinn hrósaði mér fyrir treyjuna. Hið sama gerði þjónninn sem færði mér hádegismatinn. Strákurinn sem ráðlagði mér um gönguleiðir í nágrenni bæjarins lýsti því yfir að það væri réttast að henda mér öfugum út. Það voru tveir menn á vakt í afgreiðslunni á hótelinu þegar ég ritaði mig inn. Annar þeirra hrósaði mér fyrir að vera í réttu liði. Hinn bauð mér að borða smásteina úr kertaskál ef ég væri svangur. Sem betur fer var það sá fyrri sem afgreiddi mig. Ég veit ekki hvort treyjan hafi haft eitthvað með það að gera að ég fékk herbergi með afar fallegu útsýni yfir dómkirkjuna, stöðuvatnið og fjöllin handan þess.