Afmæli í Brasilíu ?>

Afmæli í Brasilíu

Ég var í skýjunum með það að halda upp á afmælið mitt í Brasilíu. Þess vegna ákvað ég að halda upp á það að nokkru leyti í skýjunum.

Cessna

Ég byrjaði daginn á því að pakka saman föggum mínum og halda út á fugvöllinn í São Paulo. þar sem ég hafði mælt mér mót við vinafólk mitt sem komu með flugi frá Þýskalandi fyrr um daginn. Við flugum saman í vestur til borgarinnar Campo Grande sem er ekki ýkja langt frá landamærum Brasilíu og Bólivíu. Þar beið okkar bílstjóri sem ók okkur til bæjarins Aquidauana sem er í útjarðri náttúruvendarsvæðis er nefnist Pantanal. Á flugvellinum (grasbalanum) í Aquidauana stigum við upp í fjögurra sæta Cessna vél sem flaug með okkur upp eftir Svartá (Río Negro) til bóndabæjarins Barranco Alto þar sem við ætlum að dvelja næstu daga.

Barranco Alto er ekkert smábýli heldur átta þúsund hektara jörð í hjarta Pantanal. Eigendurnir eru líffræðingar sem ásamt hópi annarra líffræðinga reka ferðaþjónstu fyrir ferðalanga sem þyrstir í að skoða villt dýralíf Pantanal svæðisins.

Cayman

Þar sem það var áliðið dags er við mættum á svæðið þá tókum við því rólega það sem eftir var dags. Heilsuðum upp á smá-krókódílana (cayman) sem búa í og við Svartánna, snæddum afmæliskvöldverð ásamt hinum gestunum og drukkum chapirinha. Þar sem ég er eini ferðalangurinn sem er ekki þýskumælandi þá geri ég ráð fyrir að í lok vikunnar verði ég ekki einungis fróður um dýralíf Pantanal svæðisins heldur einnig flugmæltur á þýsku (Wir mussen mit Die Dubbel-decker fliegen).

Comments are closed.