Marxa Gràcia Montserrat
Ég hef það fyrir satt að hreyfing og útivera sé holl og góð fyrir líkama og sál. Það jafnast fátt við að fá sér hressandi göngutúr úti í náttúrinni, liðka líkamann og njóta útsýnisins.
Ég er þó ekki viss um að göngutúr helgarinnar geti fallið undir þessa skilgreiningu á heilsubætandi hreyfingu. Göngutúrinn var heldur þreytandi, líkaminn tiltölulega striður í lokin og útsýnið af skornum skammti.
Gangan hófst á ráðhústorgi Gràcia hverfis í Barcelona klukkan fimm síðdegis á laugardegi. Eftir að hafa gengið nánast sleitulaust í gegnum kvöld, nótt og morgun þá lauk ég göngunni á torginu framan við Montserrat klaustur klukkan níu á morgni sunnudags. Ég gekk í 16 tíma og lagði 63 kílómetra að baki. Samanlagður hæðamunur á leiðinni var um 5000 metrar — um 2850 metrar upp í móti og 2150 metrar niður í móti.
Marxa Gràcia-Montserrat er árlegur viðburður og er hluti af katalónsku mótaröðinni í þolgöngu. Af um fimmhundruð þátttakendum þá eru þó fæstir í miklu keppnisskapi. Takmark flestra er að klára gönguna og skemmta sér og öðrum í/á leiðinni. Um það bil tveir af hverjum þremur þáttakendum ná að jafnaði fyrra takmarkinu. Ég tel hins vegar næsta víst að nánast allir skemmti sér vel.
Fyrsti hluti leiðarinnar liggur yfir Collserola fjallgarðinn norð-vestur af Barcelona. Gengið er á tvo „tinda“ — Vallvidrera (386m) og Turons de Can Pasqual (472m) — áður en haldið er niður á lægra land. Leiðinn liggur þaðan áfram í norð-vestur í gegnum skóglendi og yfir hóla og hæðir. Eftir 50km göngu liggur leiðin á ný upp í krefjandi hæðir. Fyrst er gengið á tindinn Creu de Saba (587m). Þaðan liggur leiðin aftur niður á láglendi áður en lagt er í síðasta spölinn sem er vægast sagt brattur stígur upp að Montserrat klaustri (718m).
Útsýnið á leiðinni er misjafnt. Á fyrsta hluta leiðarinnar er fallegt útsýni yfir Barcelona og nærsveitir. Stærstan hluta leiðarinnar er hins vegar gengið um skóglendi í svartamyrkri. Það er því varla hægt að tala um útsýni. Nær væri að tala um svartsýni. Flestir þátttakendur eru þó á þessum tímapunkti bjartsýnir um að ná á leiðarenda. Til þess að auka enn á bjartsýnina og forðast það að göngufólk villist af leið þá er leiðin mörkuð með sjálflýsandi borðum og þátttakendum gert að vera með ljósgjafa á enni eða vasaljós í hönd. Eftir sólarupprás liggur leiðin út úr skóginum og hægt er að njóta útsýnisins úr hlíðum Montserrat fjallgarðsins — það er að segja ef fólk er ekki of þreytt til þess að líta við.
Líkt og með útsýnið þá er undirlag göngunnar er einnig misjafnt. Ýmist er gengið eftir fáförnum malarvegum, skógarstígum, í gegnum þorp og bæi eða eftir árfarvegum. Skógarstígarnir eru margir í slæmu ásigkomulagi vegna þess að regnvatn hefur grafið í þá skurði. Sumir eru því talsvert erfiðir yfirferðar, sérstaklega ef gengið er niður í móti.
Til þess að gera gönguna bærilegri er reglulega boðið upp á mat og drykk á leiðinni. Alls eru sjö stöðvar þar sem göngugarpar geta svalað þorstanum og fengið sér matarbita. Á þessum stöðvum fá þátttakendur einnig ýmist stimpil á þar til gerðan passa eða númer þeirra skráð til þess að ganga úr skugga um að enginn stytti sér leið. Í sama tilgangi eru einnig nokkrar „óvæntar“ sjálfsafgreiðslustöðvar á leiðinni þar sem þátttakendur þurfa að gata passana sína sem sönnun þess að þeir hafi gengið rétta leið.
Í ár var í annað sinn sem ég tek þátt í Gràcia-Montserrat göngunni. Fyrra skiptið var fyrir tveimur árum. Þá lauk ég göngunni á rúmum fjórtán tímum, var gersamlega örmagna undir lokin og var nokkra daga að jafna mig. Í ár var ég rólegri í tíðinni og tók mér lengri hvíld á drykkjarstöðvunum. Þó ég hafi vissulega verið afar þreyttur og stirður í lokin þá var ég í ár tiltölulega hress þegar ég kom á áfangastað. Þar að auki var ég vel rólfær á mánudagsmorgni. Þó ávallt sé erfitt sé að rökræða um orsök og afleiðingu þá vil ég trúa því að hægagangurinn hafi verið til góðs.
Í upphafi dagbókarfærslunnar velti ég því fyrir mér hvort göngutúr helgarinnar hafi verið heilsubætandi. Ég held ég láti það vera að reyna að svara þeirri spurningu. Að minnsta kosti tel ég að hann hafi ekki verið neitt sérlega heilsuspillandi. Það sem mestu máli skiptir er að ég hafði gaman að göngunni og félagsskapnum.