Af hlaupum og töflureiknum
Frá mínu sjónarhorni var árið 2006 hlaupár. Í byrjun ársins skrapp ég í búð og keypti mér nýja hlaupaskó. Næstu mánuði fór ég reglulega út að hlaupa. Með fáum undantekningum þá hljóp ég þrisvar sinnum í viku og jók smám saman vegalengdina sem ég gat hlaupið samfellt. Þá um haustið kórónaði ég árið með því að hlaupa mitt fyrsta hálfmaraþon.
Frá árinu 2006 hef ég farið all nokkrum sinnum út að skokka. Ég hef hlaupið ein fjögur hálfmaraþon og nokkur styttri hlaup. Hins vegar er einn þáttur hlaupársins 2006 sem mér hefur aldrei tekist að endurtaka þrátt fyrir margar tilraunir. Undanfarin ár þá hef ég ekki náð því að fara reglulega út að hlaupa mánuðum saman.
Í hvert sinn sem ég hleypi af stað nýju hlaupaátaki og reyni að ná upp reglulegu hlaupamynstri þá spyr ég mig sömu spurningar. Hvað var svona merkilegt við hlaupárið 2006?
Árið 2006 var mitt síðasta ár sem doktorsnema við Háskólann í Amsterdam. Ég var önnum kafinn við það að skrifa doktorsritgerðina mína. Þrjá morgna í viku hverri gaf ég mér þó tíma til þess að fara út að hlaupa. Ég notaði ferska morgnana til þess að skokka um niðurlenska flatneskju jafnframt því sem ég skipulagði í huganum skriftir dagsins. Að hverju hlaupi loknu skráði ég vegalengdina samviskusamlega í töflureikni.
Frá og með árinu 2007 varð öldin önnur. Frá mínu sjónarhorni séð voru áramótin 2006/2007 í raun aldamót. Ég flutti úr fersku flatneskjunni í Amsterdam yfir í heitu hæðirnar í Barcelona. Doktorsritgerðin var skrifuð, varin og pakkað niður í kassa. Töflureiknisskjalinu var lokað. Hinn reglulegi hlaupataktur riðlaðist.
Ég velti því reglulega fyrir mér hvað ég geti gert til þess að endurskapa þær aðstæður sem einkenndu árið 2006. Flestir þættir eru hins vegar utan seilingar. Ekki get ég tekið mér kökukefli í hönd og flatt Barcelona út. Ekki get ég skrúfað niður í hitanum hér við Miðjarðarhafið. Ég get vissulega skrifað aðra doktorsritgerð en ég er ekki sannfærður um að það sé lykillinn að reglulegum hlaupatakti.
Fyrir hálfum mánuði síðan greip ég í síðasta hálmstráið. Ég ákvað að gera úrslitatilraun til þess að ná upp reglulegum hlaupatakti. Ég opnaði nýtt skjal í töflureikninum. Ég setti fimm kílómetra í reit E2 og reiknaði mig fram í hálft maraþon í reit M22.
Í dag er ég staddur í reit M3 og búinn að halda nokkuð reglulegum hlaupatakti í tvær vikur. Í fljótu bragði virðist töflureiknirinn vera að gera sitt gagn. Spurningunni um það hvort hann nægi til þess að gera árið 2012 að hlaupári er enn ósvarað. Ég er hins vegar bjartsýnn á það að ég hafi dottið niður á réttu formúluna.