700 grömm af heilbrigðri skynsemi
Ég flaug um daginn með easyJet frá London til Barcelona. Sú flugferð fékk mig til þess að velta fyrir því vægi sem reglur hafa í okkar daglega lífi á kostnað heilbrigðrar skynsemi.
Við innritunarborðið var mér tjáð að ferðataskan mín væri of þung — 21,6 kíló — 1,6 kílóum yfir hámarksþyngd. Í stað þess að rukka mig þegar í stað þá spurði stafsmaðurinn við innritunarborðið hvort ég gæti ekki flutt eitthvað úr ferðatöskunni yfir í handfarangurinn minn.
,,Rúmt eitt og hálft kíló?“ spurði ég og varð hugsað til þess að bakpokinn minn var þá þegar talsvert þétt troðinn þar sem hann innihélt meðal annars fartölvu, þrjár 500+ blaðsíðna skáldsögur, handrit af smásagnasafni, rafbók, minnisbók, tvo DVD diska, trefil og fleira smálegt.
,,Í rauninni þarftu bara að flytja 700 grömm yfir í handfarangurinn,“ svaraði starfsmaðurinn. ,,Því ef ferðataskan er 20,9 kíló þá rukkum við ekki 10 pundin sem eitt kíló af yfirvigt kostar.“
Þar sem að 700 grömm hljómaði heldur skárr en eitt og hálft kíló þá varð ég við bón starfsmannsins og tróð nokkrum hleðslutækjum og tveimur skyrtum í bakpokann. Við það fór þyngd ferðatöskunnar niður fyrir 21 kíló, öllum reglum var framfylgt og allir græddu.
Og þó. Eftir þessi viðskipti þurfti ég að burðast með enn þyngri bakpoka um flugvöllinn. Þessi sami bakpoki tók þar að auki meira pláss í farþegarýminu — pláss sem er að öllu jöfnu af skornum skammti þegar vélin er þétt setin.
Frá mínum bæjardyrum séð töpuðu því báðir aðilar á viðskiptunum. Ég bar þyngri byrðar og flugfélagið hafði minna pláss í farþegarýminu sem jók líkurnar á því að fluginu seinkaði vegna flókins handfarangurs Tetris leiks sem er að öllu jöfnu spilaður þegar koma þarf handfarangri fyrir í farþegarými.
Ég get því ekki betur séð en að það hefði verið öllum til hagsbóta ef starfsmaðurinn hefði fengið að beita heilbrigðri skynsemi í stað þess að fylgja reglum fyrirtækisins. Þar sem að fyrirtækið ætlaði ekki á annað borð að rukka mig fyrir yfirvigtina þá hefði verið mun skynsamlegra að líta hreinlega framhjá því að taskan mín væri of þung í stað þess að flytja þyngd og rúmmál yfir í handfarangurinn.