Tíu ára útivera ?>

Tíu ára útivera

Á þessum degi fyrir tíu árum pakkaði ég nokkrum sokkum, nokkrum bókum, og fleiru niður í ferðatösku. Ég yfirgaf litla Ísland og hélt á vit ævintýranna úti í hinum stóra heimi. Ég tók flugið til Amsterdam þar sem ég hugðist læra rökfræði. Á þessum tímamótum er því við hæfi að líta um öxl og líta yfir farinn veg.

Þó svo að rökfræði hafi orðið fyir valinu þá beitti ég ekki mikilli rökfræði við valið. Ég hafði verið að lesa bók um fræðilega tölvunarfræði sem gefin var út í Hollandi. Mér líkaði bókin vel og einhverra hluta vegna sannfærðist ég út frá því að það væri hægt að læra eitthvað skemmtilegt í Hollandi. Ég skellti mér því á netið og leitaði að háskólum í Hollandi. Fyrsta leitarniðurstaðan var heimasíða Háskólans í Amsterdam. Ég smellti á síðuna og það fyrsta sem ég rak augun í var fyrirsögnin Námsleiðir á ensku. Það rann upp fyrir mér að kunni ekki stakt orð í hollensku og það væri því ekki svo vitlaust að athuga betur þessar námsleiðir sem kenndar væru á ensku. Á meðal þeirra námsleiða var ein sem skar sig úr — Master of Logic. Mér fannst titillin einstaklega svalur og ákvað því að slá til.

Tæpum tveimur árum síðar var ég að leggja lokahönd á að geta talist meistari í rökfræði, samhliða því sem ég leitaði mér að vinnu. Atvinnuleitin gekk vægast sagt illa. Eitt sinn er ég ræddi atvinnumálinn við leiðbeinandann minn sagði hann eitthvað á þá leið að í versta falli ætti ég að íhuga þann möguleika að fara í doktorsnám. Hvort sem það var versta fall eða ekki þá var ég nokkrum mánuðum síðar orðinn meistari í rökfræði og doktorsnemi í tölvunarfræði við Háskólann í Amsterdam.

Næstu fjögur árin rannsakaði ég leitarvélar og varði doktorsritgerð um það efni. Atvinnuleitin gekk betur að loku doktorsnáminu en meistarnáminu. Enda leitarvélar heitara viðfangsefni heldur en formleg mál. Leiðin lá suður á bóginn til Barcelona þar sem ég hef haldið áfram leitarvéla rannsóknum mínum áfram hjá rannsóknardeild Yahoo!

Þegar ég flutti til Amsterdam fyrir tíu árum varð ég strax heillaður af stórborginni Amsterdam. Á þeim rúmu sex árum sem ég bjó þar smækkaði borgin smám saman í huga mínum. Undir lokin var hún nær því að vera stórþorp eða smáborg. Það var því ekki erfið ákvörðun að flytja sig um set. Þegar ég flutti til Barcelona fann ég fyrir nokkurn vegin sömu tilfinningu. Ég varð heillaður af stórborginni Barcelona. Þó svo að borgin hafi vissulega smækkað á þeim tæpu fjórum árum sem ég hef búið hér þá er hún enn nógu stór fyrir mig. Við sjáum hvað setur á næstu tveimur árum.

Á þessum tíu árum sem ég hef búið fjarri Íslands ströndum hef ég regluega verið spurður að því hvort ég sé ekki á leiðinni heim. Svar mitt er eins og stjórnmálamannsins. Á þessari stundu ef ég engin áform þess efnis. Ég útiloka þann möguleika hins vegar ekki. Miðað við það hvað mér líður vel að búa í stórborg þá finnst mér ólíklegt að ég snúi til baka til Íslands næstu árin. Sjáum til hvernig staðan verður þegar ég geri upp næstu tíu ár.

One thought on “Tíu ára útivera

  1. Skemmtilegt yfirlit.
    Það verða bráðum 5 ár síðan ég fluttist frá Íslandi og er ekkert á leiðinni ‘heim’ nema bara í heimsóknir. Af þeim Íslendingum sem ég þekki til í BNA er kominn heimhugur í þau eftir 10 ára vist í útlandinu, þ.e.a.s. fyrir hjón með börn. Börnin eru nefnilega farin að vera of útlensk. Mín eru sem betur fer hálfútlensk til að byrja með og þetta ‘vandamál’ truflar mig ekki.
    Þú getur því ótrauður búið áfram í útlandinu 😉

Skildu eftir svar