Jólahefðir ?>

Jólahefðir

Þó ég hafi búið erlendis í næstum níu ár þá eru framundan fyrstu jólin sem ég mun halda utan Íslands. Það er því næsta víst að jólin verða ekki sérlega hefðbundin. Ég hef þó ákveðið að reyna að halda í einhverjar hefðir.

Ein af þeim hefðum sem ég hef tileinkað mér í gegnum árin er að borða ekki kæsta skötu á Þorláksmessu. Ég einsetti mér því að reyna mitt besta til þess að halda í þá hefð í dag. Ég passaði mig á því að panta mér grís þegar ég fór út að borða með vinnufélögunum í hádeginu og sneyddi framhjá fiskborðinu í stórmarkaðnum ef ske kynni að þar væri ekki þverfótað fyrir kæstri skötu.

Önnur hefð sem ég ætla að halda í heiðri þessi jólin er að útbúa möndlugraut. Á morgun er mér boðið í mat hjá Bandarísku vinafólki mínu og bauðst ég til þess að kynna þeim íslenskar möndlugrautarvenjur. Ég skrapp því í búð til þess að sanka að mér nauðsynlegu hráefni. Í hnetudeildinni blasti við mér dágott úrval af möndlum. Þær voru hins vegar allar ristaðar. Það yrði ekki hlaupið að því að fela eina þeirra í grautnum.

Ég dró andann djúpt og reyndi að átta mig á því hvað væri hægt að gera í stöðunni. Ég komst brátt að þeirri niðurstöðu að ég ætti einungis um tvo kosti að velja. Annars vegar gæti ég brennt grautinn heldur hressilega til þess að gefa honum ristaðann möndlulit. Hins vegar gæti ég skipt möndlunni út fyrir hvítlauksrif og boðið upp á heldur óhefðbundinn hvítlauksrifsgraut.

Einhverra hluta vegna leist mér á hvorugan kostinn. Ég var við það að örvænta þegar ég minntist þess að oft eru til hnetur í ávaxtadeildinni. Það reyndist rétt. Þar nældi ég í öskju með hráum möndlum. Ég ætti því ekki að þurfa að brenna grautinn á morgun. Hvort það takist er hins vegar önnur saga.

Skildu eftir svar