Sagan öll ?>

Sagan öll

Í september í fyrra datt mér sú fásinna í hug að skrifa heila skáldsögu á einum mánuði. Á næstum hverjum morgni þann mánuðinn sat ég með tölvuna í kjöltunni og hamaðist við að skrifa. Í lok mánaðarins hafði ég lokið ætlunarverki mínu. Ég hafði skrifað yfir 50.000 orð á 30 dögum. Ég hafði skrifað mína fyrstu skáldsögu.

Síðan í september hefur skáldsagan legið ein og yfirgefin ofan í skúffu. Enginn hefur veitt henni athygli. Hún hefur verið afar einmana. Fyrir mánuði síðan sagði ég við sjálfan mig að þetta gengi ekki lengur. Ég gæti ekki setið of horft upp á aumingja söguna dúsa svona eina og afskipta ofan í skúffu. Eitthvað þyrfti að gera í málunum. Ég varð að gera eitthvað fyirir hana blessunina.

Eftir nokkrar bollaleggingar og heilabrot komst ég að því að það væri í raun ekki nema einn kostur í stöðunni. Það var bara eitt sem ég gat gert til þess að binda endi á einveru sögunnar í skúffunni. Ég varð að skrifa aðra skáldsögu. Og það í hvelli. Á einum mánuði.

Undanfarinn mánuð hef ég því tekið daginn snemma og hamast við að skrifa upp í orðakvóta dagsins áður en ég held til vinnu. Í gær, 30 dögum eftir að ég byrjaði á minni annarri skáldsögu, skrifaði ég 50.000asta orðið. Ég skrifaði lokakaflann. Ég lauk við að skrifa mína aðra skáldsögu.

Á morgun ætla ég að prennta söguna út, hefta síðurnar saman og stinga sögunni ofan í skúffu. Frá og með morgundeginum þarf ég því ekki að hafa af því áhyggjur að skáldsagan mín liggi ein og afskipt ofan í skúffu. Þær verða þar tvær saman. Þær geta haft ofan hvor fyrir annarri.

Skildu eftir svar