Mulla’t i corre
Mig hefur lengi dreymt um það að þeysa á ofsahraða eftri kappakstursbraut. Finna lyktina af brennandi gúmmíi. Finna vindinn leika um andlitið. Finna adrenalínið flæða um líkamann. Finna hjartað slá hraðar. Í dag lét ég drauminn rætast.
Í dag vætti ég mig til styrktar MS sjúkdómnum. Ég tók þátt í hlaupinu Mulla’t i corre per l’esclerosi múltiple — Vættu þig og hlauptu til styrkar MS. Eftir því sem ég kemst næst tíðkast það hér í Katalóníunni að væta sig til styrktar góðu málefni. Látum það liggja milli hluta hvers konar vætu er verið að vísa til. Í mínu tilfelli var það sviti — samkvæmt veðurspánni einnig hugsanlega í bland við rigningu.
Áður en ég gat farið að svitna fyrir gott málefni þá þurfti ég að finna hlaupabrautina. Brautin sú var engin önnur en Kappakstursbraut Katalóníu. Ég tók því lestina til Montmeló og hélt þaðan fótgangandi út úr bænum í leit að brautinni. Þrátt fyrir mína hæfni í ratleikjum þá gekk mér furðulega vel að finna brautina. Ég þurfti þó að ganga talsvert meðfram brautinni til þess að finna réttan inngang. Það gekk hins vegar á endanum.
Þegar ég var búinn að sækja númerið mitt var ekkert annað að gera en að skella bakpokanum í geymslu og byrja að hita upp. Ég skokkaði því í gegnum einn bílskúrinn, inn á þjónustusvæðið og síðan út á brautina sjálfa.
Í gær hafði ég hugsað með mér að það að hlaupa á kappakstursbraut hlyti að vera tilvalið tækifæri til þess að bæta minn besta tíma. Kappakstursbrautir eru algerlega flatar — er það ekki? Eh, nei. Það er greinilega langt síðan ég horfði á Katalóníukappaksturinn síðast. Það tók mig ekki langa upphitun að komast að því að brautin er svo sannarlega ekki flöt. Eiginlega allt annað en flöt. Þrátt fyrir óflatneskjuna var ég samt ákveðinn að bæta minn besta tíma. Ég var nú einu sinni á kappakstursbraut.
Hlaupið var ræst á slaginu tíu. Hlaupnir voru rúmlega tveir hringir um brautina — 10 kílómetrar. Hlaupararnir hlykkjuðust um hlykkjótta brautina. Ýmist upp smá halla eða niður smá halla. Talsvert meira var um ,,framúrakstur“ heldur en þegar Formúlu-1 bílar aka um brautina. Þetta var því miklu meira spennandi keppni heldur en Formúlan. Ég skil hins vegar ekki hvers vegna áhorfendurnir létu sig vanta.
Það virðraði ágætlega til langhlaupa. Sólin lét aðeins sjá sig í upphafi hlaupsins. Eftir því sem leið á hlaupið fóru skýin að hrannast upp. Þegar ég átti rúmlega tvo kílómetra eftir að markingu voru skýin orðin orðin heldur svört. Þá kom upp hin klassíska Formúlu-1 spurning: Mun hann hanga þurr? Eða mun koma hellidemba? Ég hafði vart sleppt spurningunni þegar svarið kom. Það kom hellidemba.
Ég vonaði að ég myndi ná að komast í mark áður en öryggishlauparinn yrði kallaður á svæðið til þess að hægja á hlaupinu áður en fólk færi að missa gripið í beygjunum, hendast út af brautinni, yfir mölina, og hlaupa á fullri ferið inn í dekkjastæðurnar.
Markið nálgaðist. Rigningin jókst. Þegar ég hljóp framhjá aðreininni inn á þjónustusvæðið datt mér í hug að hugsanlega væri skynsamlegt að skella mér inn á þjónustusvæðið til þess að fá mér orkudrykk og skipta hlaupaskónum út fyrir gúmmístígvél. Þar sem ég átti hins vegar einungis 500 metra eftir að markinu þá ákvað ég að taka áhættuna á að hlaupaskórnir kæmu mér yfir marklínuna — þrátt fyrir rigninguna.
Herkænskan virkaði. Ég komst í mark án þess að taka þjónustuhlé og skipta um skó. Hins vegar vantaði herslumuninn að ég næði að bæta minn besta tíma. Ég kom í mark á 49:12 mínútum. Ég var tveimur sekúndum hraðari en fyrir þremur vikum þegar ég hljóp slökkviliðsmannahlaupið. Greinilega afrakstur þrotlausrar þjálfunar. Ég var hins vegar einni sekúndu frá mínum besta tíma.
Það er gildir um langhlaupin eins og Formúluna — hver sekúnda skiptir máli.
Þó ég hagfi ekki náð að bæta metið mitt þá get ég allavegana huggað mig við það að ég var fljótari enn gaurinn á myndinni hér til vinstri!