Minni-hluta stjórn
Ég get ekki sagt að ég sé mikill stuðningsmaður ríkisins. Mér finnst afar leiðinlegt að sjá hvernig ríkið virðist með engu móti geta staðist að vera með puttana í öllum sköpuðum — og vansköpuðum — hlutum. Oft er um að ræða afar stóra hluti eins og ríkisstyrktar risavirkjanir, rándýrar tónlistarhallir, mikilfenglegar sendiráðsbyggingr, rausnarlega félagslega aðstoð við hátekjufólk, kostnaðarsöm framboð í öryggisráð og svo framvegis.
Það er mér því til mikillar gleði að loksins sé komin minni-hluta stjórn á Íslandi. Ég geri fastlega ráð fyrir að hún muni bera nafn með renntu og einbeiti sér að minni hlutum — og dragi verulega úr ríkisbákninu. Eða er ég kannski að misskilja eitthvað?