XXIX Mitja marató L’Espirall ?>

XXIX Mitja marató L’Espirall

Ég fékk mér í dag hlaupatúr um vínhéraðið Penedés. Það er að segja ég tók þátt í XXIX Mitja marató L’Espirall — Espirall hálf maraþoninu. Það er ekki hægt að segja annað en að það hafi viðrað mjög vel … allavegna til vínræktar. Að minnsta kosti skrælnaði vínviðurinn ekkert sökum mikilla þurrka.

Af reynslu minni hingað til hefur mér fundist spænskir veðurspámenn heldur svartsýnir. Þeir eiga það til að spá oftar rigningu heldur en þörf er á. Mynstrið er oftast þannig að rigningin er mest í tíu daga spánni en síðan dregur smám saman úr henni þar til hún loks hverfur. Undanfarna daga hef ég hef fylgst grannt með spánni fyrir daginn í dag. Langtíma spáin spáði úrhelli. Skammtíma spáin spáði úrhelli. Spáin í morgun spáði úrhelli. Þeger ég fór út í morgun var skýjað en þurrt.

Það var eilítil súld þegar við félagarnir lögðum af stað frá Barcelona áleiðis til Vilafranca del Penedés. Fínasta hlaupaveður. Á leiðinni kom hins vegar úrhellis rigning. Það rigndi svo stíft að sú hugmynd kom upp að sleppa hlaupinu. Þegar við komum til Vilafranca hafði hins vegar stytt upp. Það var því komið fínasta hlaupaveður á ný. Við ákváðum því að láta slag standa.

Uppstyttan hélt þangað til nokkrum mínútum fyrir hlaupið. Þá byrjaði úrhellið á ný. Við hlupum því af stað í úrhellis rigningu. Það var ekkert sérstaklega bjart framundan. Strax á fyrstu metrunum fékk ég þó afar góða tilfinningu fyrir hlaupinu. Mér fannst regnið bara hressandi. Það var eins og rigningin gæfi mér auka kraft. Ég fann að þessar aðstæður hentuðu mér betur heldur en sólin og blíðan sem ég hef hingað til þurft glíma við á hlaupum mínum hér á Spáni.

Það fór svo að það gekk á með úrhellis rigningu nánast allt hlaupið. Það skiptust á skúrir og úrhelli fyrsta klukkutímann og hálfan þann næsta. Eftir það skiptust á næstum-því-skin og skúrir. Það var því enginn skortur á hressandi auka krafti af himnum ofan.

Ég hljóp fyrstu tíu kílómetrana á nokkuð jöfnum hraða — 27:02 og 27:10 hvorn fimm kílómetra spottann. Eftir það sló aðeins slöku við og hljóp næstu fimm kílómetra á 27:29 — enda í bröttustu brekkum dagsins. Eftir að hafa hlaupið fimmtán kílómetra var ég hins vegar orðinn svo gegnsósa af hressandi vatni að ég skipti um gír og hljóp næstu fimm kílómetra á 26:27. Það kom mér skemmtilega á óvar að skyldi vera svona sprækur síðustu kílómetrana.

Það fór því svo að ég kláraði hlaupið á 1:53:51 — ég var fjórum mínútum fljótari en fyrir mánuði — og setti þar með persónulegt met. Það er næsta víst að ég mun dansa regndans fyrir næsta hlaup í þeirri von að ég fái annan eins orkuskammt af himnum ofan.

Skildu eftir svar