Æskudraumur rætist ?>

Æskudraumur rætist

Það er ekki á hverjum degi sem æstkudraumar rætast. Til dæmis á ég ekkert sérstaklega von á því að nokkur slíkur rætist í dag. Hins vegar rættist einn slíkur í gærkvöldi. Í gær lauk ég við uppkast að minni fyrstu skáldsögu … eða réttara sagt þá lauk ég við mitt fyrsta uppkast að skáldsögu.

Frá því að ég man eftir mér hefur mig dreymt um að skrifa skáldsögu. Í gegnum tíðina hef ég gert nokkrar tilraunir til þess að láta þann draum rætast. Þar til í gær höfðu flestar þær tilraunir endað eftir örfáar málsgreinar. Mig vantaði alltaf söguþráð.

Í ágúst 2007 ákvað ég að taka skáldsöguskrifin fastari tökum. Ég fékk hugmynd að snilldar efnivið í skáldsögu. Ég byrjaði að skrifa. Í ágúst 2008 lagði ég söguna til hliðar. Eftir að hafa unnið að sögunni í heilt ár stóð ég uppi með hálf kláraða sögu sem var flókin, samhengislaus og þversagnarkennd. Ég sá enga leið til þess að klára söguna.

Á þeirri stundu var mér hugsað til bókar sem ég hafði keypt mér í San Fransisco í febrúar. Bókin nefnist ,,No plot? No problem!“ og er sjálfshjálpar bók fyrir áhugarithöfunda.  Megin kenning bókarinnar er að helstu vandamál áhugarithöfunda eru annars vegar að þá vanti skilafrest og hins vegar innri ritskoðun. (sjá nánar http://www.chroniclebooks.com/noplotnoproblem/).

Samkvæmt bókinni er lausnin að skrifa skáldsögu í kapp við klukkuna. Nánar tiltekið að skrifa skáldsögu á 30 dögum … þar sem skáldsaga er skilgreind sem 50.000 orð sem mynda nokkurn veginn samanhangadi sögu sem hefur upphaf og enda. Í hnotskurn er aðal málið að einbeita sér að magni í stað gæða (gæði eru seinni tíma vandamál). Aðal atriðið er að skrifa og skrifa án þess að líta til baka.

Fyrsta september byrjaði ég að skrifa nýja skáldsögu. Í gær — þrítugasta september — skrifaði ég fimmtíuþúsundasta orðið. Þar með var ég — samkvæmt ofangreindri skilgreiningu — búinn að skrifa mína fyrstu skáldsögu. Æskudraumur hafði ræst.

Skildu eftir svar