Cursa de la Mercè 2008 ?>

Cursa de la Mercè 2008

Ég tók í dag þátt í þrítugasta Merce hlaupinu. Hlaupnir voru tíu kílómetrar um götur Barcelona. Ég hafði sett mér það markmið að bæta minn besta árangur um rúma mínútu og hlaupa á innan við 48 mínútum. Þar sem ég er búinn að vera óvenjulega duglegur við að hlaupa undanfarinn mánuð þá taldi ég þetta raunhæft markmið.

Á fimmtudaginn komust hins vegar öll mín plön í uppnám. Eiginkona aðal halupafélaga míns spurði mig hvort ég stefndi enn á að hlaupa tíu kílómetrana á 45 mínútum. Ég leiðrétti hana og sagðist ekki stefna nema á 47 og hálfa mínútu eða svo. Hún sagðist hafa heyrt annað frá manni sínum. Ekki bætti úr skák að eiginmaðurinn (hennar) tók undir með henni og hélt því fram að ég stefndi á 45 mínúturnar. Ég nennti ekki að deila við þau hjónakornin og gekkst við því að stefna á að hlaupa hlaupið á 45 mínútum.

Við lögðum því af stað í morgun — hlaupafélagarnir — með það fyrir augum að hlaupa yfir marklínuna eigi síðar en 45 mínútum síðar. Hlaupið byrjaði ekki vel. Við lenntum í svaka traffík í byrjun og siluðumst fyrsta kílómetrann á rúmlega fimm og hálfri mínútu. Eftir fyrsta kílómetrann letti á traffíkinni og við gátum farið að spretta úr spori. Við færðums hins vegar sífellt fjær markmiði okkar.

Við hlupum yfir fimm kílómetra markið 24 og hálfri mínútu eftir að við lögðum af stað. Stuttu síðar fór bilið að greikka milli mín og hlaupafélagans. Hann hvarf inn í þvöguna sem var framundan. Ég gerði ráð fyrir að hann væri búinn að fá nóg af því að reyna að smala eftirlegukindinni — mér — og langaði að fara að hlaupa á almennilegum hraða. Það kom mér því á óvart þegar ég hljóp hann uppi þegar hálfur þriðji kílómetri var eftir. Við hlupum saman dágóða stund þangað til ég seig framúr á síðasta kílómetranum.

Þegar upp var staðið kom ég í mark á 49:22. Fjórum og hálfri mínútum á eftir áætlun eiginkonu hlaupafélagans, mínútu og hálfri á eftri minni upphaflegu áætlun, tíu sekúndum frá mínum besta tíma (röngu megin), og ellefu sekúndum á undan hlaupafélaganum.

Nú er bara að slaka á og reyna að gera raunhæfari plön fyrir hálfmaraþonið sem við hlaupafélagarnir ætlum að hlaupa eftir hálfan mánuð.

2 thoughts on “Cursa de la Mercè 2008

Skildu eftir svar