Óstöðug rithönd ?>

Óstöðug rithönd

Þrátt fyrir að það séu all nokkur ár síðan ég lærði að skrifa þá hef ég aldrei náð að þróa með mér sérstaklega stöðuga rithönd. Rithöndin breytist frá degi til dags. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á rithöndina. Það skiptir máli á hvernig pappír ég rita, hvers konar skriffæri ég hef í hönd, hvers konar undilag er til staðar, og þar fram eftir götunum. Síðast en ekki síst skiptir máli í hvernig skapi ég er — hvort ég er í skapi til að vanda mig eður ei.

Þessi breytileiki í rithönd hefur það í för með sér að undirskrift mín breytist frá degi til dags. Stundum nenni ég að skrifa nafnið mitt fullum fetum. Stundum læt ég mér nægja að skrifa ,,Börkur Sigurbj.“ eða jafnvel barasta ,,Börkur Sig.“ Jafnvel þótt stafafjöldinn haldist stöðugur frá degi til dags þá getur undirskriftin gjörbreyst eftir því í hvernig skapi ég er. Stundum er hægt að greina á milli einstakra stafa. Stundum líta stafirnir allir eins út — þeir eru bylgjulaga. Þrátt fyir þennan breytileika í undirskrift þá vill svo merkilega til að mér hefur aldrei verið neitað um að fá að borga með korti — jafnvel þótt undirskriftin á kvittuninni sé gerólík undirskriftinni á kortinu.

Nú eru komið rúmt ár síðan ég flutti mig um set frá Amsterdam til Barcelóna. Mér datt því í hug um daginn að það væri kannski kominn tími til að loka hollenska bankareikningnum mínum þar sem ég geri ekki ráð fyrir að flytjast þangað aftur í bráð. Ég tók mig því til og bað um að fá  sent  til mín reiknings-lokunar-eyðublað. Ég fyllti síðan samviskusamlega í eyðurnar á blaðinu og sendi bankanum. Í dag fékk ég eyðublaðið sent til baka. Í fylgibréfi var mér tjáð að ekki væri hægt að loka reikningnum þar sem að undirskriftin á eyðublaðinu passaði ekki við undirskriftina sem tengd er við reikninginn.

Það er kannski kominn tími til fyirir mig að þróa með mér staðlaða undirskrift.

Skildu eftir svar