Myndir frá Peking ?>

Myndir frá Peking

Ég lauk undir lok síðustu viku við það að hlaða upp á flickr síðuna mína myndunum sem ég tók í Peking. Ég bjó einnig til tvær yfirlits síður yfir myndirnar:

Ástæða þess að Forboðna Borgin fékk sér síðu var sú að ég tók einfaldlega allt of margar myndir þar.

Annars leit á tímabili illa út fyrir myndatökur í ferðinni. Á laugardeginum eftir ráðstefnuna fór ég í rútuferð með nokkrum vinnufélögum. Ferðinni var heitið í Hið Himneska Hof, að Kínamúrnum og í Sumarhöllina. Áður en lagt var af stað ákvað ég að sýna vinnufélaga mínum nokkrar myndir sem ég hafði tekið daginn áður. Þegar ég kveikti á myndavélinni komst ég hins vegar að því að rafhlaðan var við það að klárast. Það leit því ekki út fyrir að ég gæti tekið margar myndir í ferðinni. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan mig þá keypti ég mér einnota myndavél í söluturni við Himneska hofið — til þess að gera þetta ævintýri aðeins skemmtilegra þá ákvað ég að kaupa ódýrustu myndavélina og sjá hvað kæmi út.

Rafhlaðan í stafrænu vélinni entist hins vegar betur en ég hafði óttast og ég gat tekið all nokkrar myndir þann daginn. Ég kláraði samt sem áður filmuna í einnota vélinni. Ég er nokkuð sáttur við tilraunina með einnota vélina. Sjö myndir (af tuttugu og fjórum) tókust sæmilega — þó að þær hafi allar verið heldur rauðar.

Skildu eftir svar