La 30a Cursa El Corte Inglés!
Tók daginn snemma — miðað við að það var Sunnudagur — og var mættur niður á Katalóníu torg um níuleytið. Tilbúinn að taka þátt í Þrítugasta Kapphlaupi Ensku Hirðarinnar ásamt um það bil fimmtíu þúsund öðrum hlaupurum.
La Cursa Corte Inglés er um margt sérkennilegt hlaup. Í fyrsta lagi er hlaupið ellefu kílómetrar — sem er heldur óvenjuleg vegalengd. Sér í lagi ef haft er í huga að hlaupið er ætlað sem skemmtiskokk. Í öðru lagi þá liggur hlaupið um Montjuic — eins konar Öskjuhlíð Barcelóna. Hlaupið tekur því aðeins meira í en vegalengdin segir til um.
Þó svo að um skemmtiskokk sé að ræða þá var ákveðið í ár að mæla tíma með aðstoð flaga. Skipuleggjendur hlaupsins leigðu þó ekki út flögur en buðu flögur til kaups fyrir þá sem vildu — og áttu ekki eina slíka fyrir. Til þess að gera tilboðið heldur kræsilegra þá fengu þeir sem voru með flögu að hefja hlaupið nær ráslínunni heldur en flögulausir þáttakendur. Þar sem að ég er nær því að vera leiðinda hlaupari en skemmtiskokkari þá ég vildi gjarnan sleppa við mestu þvöguna í byrjun hlaups. Ég sló því til og keypti mér flögu.
Á slaginu hálf tíu var hlaupið ræst. Þó að ég hefði keypt mér flögu og þar með fengið að hefja hlaupið nálægt ráslínunni þá lennti ég í svakalegri traffík fyrsta kílómetrann. Ég þurfti að taka fram úr gangandi fólki, fólki með litla krakka í eftirdragi, fimm manna fjölskyldu sem ákvað að skokka í rólegheitum hlið við hlið, og svo framvegis. Þetta var nákvæmlega það sem ég hugðist sleppa við með því að kaupa mér flögu og fá þar með að ræsa framarlega.
Hvaðan kom allt þetta fólk? Ekki var það allt með flögu? Ekki gat það hafa geyst fram úr mér á fyrstu metrunum? Ég átti bágt með að skilja hvernig á þessu stóð. Helst grunaði mig að stór hópur fólks hefði einfaldlega tekið forskot á sæluna og ræst fyrir framan rásmarkið.
Það tók mig rétt rúmlega kílómetra að olnboga mig í gegnum þvöguna. Eftir það tók hópurinn að gisna og ég gat greikkað sporið og reynt að vinna upp þann tíma sem hafði tapast í þvögunni. Næstu kílómetrar gegnu vel. Eftir að hafa hlaupið um þrjá og hálfan kílómetra reiknaðist mér til að ég væri nokkurn veginn kominn á áætlun — 5 mín/km.
Stuttu síðar byrjaði að halla undan fæti. Leiðin lá upp hlíðar Montjuic. Leiðin lá upp brekku, niður brekku og svo aftur upp brekku — upp að ólympíuleikvangi Barcelóna. Brekkurnar — upp í móti — tóku talsvert í. Ég neyddist til að hægja ferðina umtalsvert. Þegar ég hljóp upp brekkuna fann ég það greinilega hvernig þyngdaraflið togaði í mig. Mér leið eins og þegar ég þarf að hlaupa í martröð — mér fannst ég varla komast úr sporunum. Brekkurnar tóku þó enda og þegar ég hljóp í gegnum ólympíuleikvanginn hugsaði ég með mér að nú væri mesta puðið að baki og við tæki skemmtiskokk niður af Montjuic, eftir jafnsléttu og inn á Katalóníu torg.
Þar skjátlaðist mér hins vegar. Þegar ég hljóp út af leikvanginum áttaði ég mig á því að þar sem við höfðum hlaupið næstum heilan hring um völlinn þá þyrftum við að hlaupa á ný upp í móti og austur fyrir völlinn áður en leiðin lægi niður á við.
Þetta var þó stysta brekka dagsins og engin óyfirstíganleg fyrirstaða. Fyrr en varði var toppnum náð. Sjö kílómetrar voru að baki. Ég hafði hlaupið í þrjátíuogsex og hálfa mínútu og var því rúmlega einni og hálfri mínútu á eftir áætlun. Það er að segja ef ég hefði gert ráð fyrir að hlaupa hlaupið á jöfnum hraða. Ég hafði hins vegar áætlað að hlaupa hægar upp í móti en niður í móti. Það má því segja að ég hafi verið nokkurn veginn á áætlun. Nú var bara að standa við það að hlaupa hraðar niður í móti.
Niðurferðin gekk þó ekki eins vel og ég hafði ætlað. Þegar átta kílómetra markinu var náð hafði ég ekki unnið upp nema um tíu sekúndur. Ég var ekki að nýta mér þyngdaraflið til fullnustu. Við tíu kílómetra markið hafði ég síðan tapað sekúndunum tíu á ný. Ég náði þó smá spretti síðasta kílómetrann. Ég kom í mark á tímanum 56:21:13 — einni mínútu tuttuguogeinni sekúndu og þrettán hundruðustu úr sekúndu á eftir áætlun (plús/mínus sekúnda eða tvær).
Eftir á að hyggja er ég bara nokkuð sáttur við hlaupið þrátt fyrir að hafa ekki náð þeim tíma sem ég stefndi á. Eftir því sem mér reiknast til þá voru fyrstu tíu kílómetrarnir næst hröðustu tíu kílómetrar sem ég hef nokkru sinni hlaupið — þrátt fyrir brekkurnar.