Tapað — fundið — tapað — fundið ?>

Tapað — fundið — tapað — fundið

Ég beið í gærkvöldi spenntur eftir því að Air China myndi færa mér farangurinn minn sem týndist á  leiðinni hingað til Pekíng. Ég hafði hringt fyrr um kvöldið og fengið þær fréttir að farangurinn væri fundinn og kominn til Pekíng. Honum yrði skutlað á hótelið um það bil á miðnætti.

Rétt eftir ellefu er hringt úr hótel afgreiðslunni og mér tilkynnt að farangurinn væri á leiðinni upp á herbergi. Húrra! Stuttu síðar er bankað. Hótelstarfsmaður er mættur með farangur herbergisfélaga míns — sem tapaði sínum farangri í sama flugi. ,,Er þetta allt og sumt? Kom ekki önnur taska?“ spurði ég vonsvikinn. Hótelstarfsmaðurinn sagði að einungis ein taska hefði verið afhennt. Þetta var allt og sumt.

Á leiðinni í morgunmatinn kom ég við í afgreiðslunni til að athuga hvort einhver misskilningur hefði orðið í gær og taskan mín biði þar eftir allt. Svo reyndist ekki vera. Ég hringdi því í Air China til þess að fá þeirra hlið á málinu. Þeirra hlið var afar skýr. Þeir sögðust hafa ekið töskunni minni á hótelið kvöldið áður.

Taskan mín virtist því hafa týnst í annað sinn. Enginn kannaðist við að hafa hana undir höndum. Ég fór því með kvittunina mína niður í hótelafgreiðslu, sagði þeim frá því að Air China héldi því fram að taskan væri á hótelinu, og bað afgreiðslumanninn að hringja í Air China til þess að fá á hreint hvað væri í gangi.

Eftir nokkur samtöl við — að mér virtist — hina og þessa starfsmenn Air China tilkynnti hótelstarfsmaðurinn mér að taskan væri á flugvellinum og yrði skutlað á hótelið seinnipartinn. Taksan var því fundin aftur. Húrra!

Ég gat notið fyrirlestra dagsins í þeirri vissu að taskan mín væri fundin — í bili að minnsta kosti.

Þegar ég kom til baka af ráðstefnunni seinni partinn beið taskan mín í hótel afgreiðslunni. Nú er bara að reyna að tapa farangrinum ekki aftur — að minnsta kosti ekki fyrr en á leiðinni til baka til Barcelona.

Skildu eftir svar