Hlaupið með sauðsvörtum almúganum
Ég skrapp í dag og náði í skráningargögnin mín fyrir Cursa Bombers 2008. Eitt af því sem mér líkar vel við þetta hlaup er að það eru engin skráningarnúmer sem maður þarf að næla á sig. Þess í stað fær hver þáttakandi ekta Nike Fit Dry hlaupabol með áprenntuðu skráningarnúmeri.
Þegar ég sótti bolinn minn og örflöguna þá áttaði ég mig á því að ég gerði svakaleg mistök. Ég gleymdi að taka með mér sönnun þess að ég hefði hlaupið 10km á innan við 53 mínútum. Það þýddi að ég fékk ekki armband sem hefði veitt mér aðgang að viðeigandi ráshóp. Ég verð því að sætta mig við það að hefja hlaupið í aftasta ráshópnum — ásamt sauðsvörtum almúganum. Þetta er náttúrlega einstaklega niðurlægjandi fyrir menn af mínum kalíber að þurfa að hlaupa innan um Pétur og Pál.
Og þó. Þetta sleppur kannski rétt fyrir horn því að mínus 53 mínútna ráshópurinn er nú bara síðasti ráshópur á undan almúganum sauðsvarta. Ég verð bara að mæta snemma á ráslínuna til þess að ná góðri stöðu á undan sauðsvartasta almúganum. Þá næ ég kannski að losna við allra mestu traffíkina.