Páskahjól
Páskadagur er tilvalinn til þess að liggja í leti uppi í sófa og borða páskaegg. Þar sem að ég átti ekkert páskaegg þá ákvað ég þess í stað að skella mér í hjólatúr.
Ég hjólaði norður frá Barcelona meðfram ánni Besós. Fyrsti hluti ferðarinnar lá í gegnum ægifagurt landslag — nema ef svo einkennilega vildi til að fólk teldi brotajárnshauga, múrsteinaverksmiðjur og geymslusvæði ekki til einstakra náttúruperla. Smám saman varð léttiðnaðurinn léttari og léttari og trjánum fjölgaði.
Eftir að hafa hjólað um það bil tuttugu kílómetra beygði ég inn í landið hjólaði meðfram ánni Congost í áttina til Granollers — borgar sem er helst þekktust fyrir að eiga handboltalið sem Atli Hilmarsson lék með á sínum tíma. Leiðin lá framhjá Circuit de Catalunya og í gegnum iðnaðarhverfi Granollers.
Planið hafði verið að halda áfram frá Granollers lengra inní landið og pínulítið upp í fjöllin. En sökum kulda (u.þ.b. 10-12 gráður) og rigningar (u.þ.b. 10-12 dropar) ákvað ég þess í stað að skella mér á kaffihús í Granollers og fá mér samloku og kaffi. Á meðan ég renndi niður kaffinu skoðaði ég landakort með það fyrir augum að finna leið til baka sem lægi í gegnum færri iðnaðarsvæði.
Kortaglápið bar árangur. Leiðin til baka lá í gegnum sveitalegara landslag og þorpin Lliçà d’Amunt, Lliçà de Vall, Parets del Vallès og Mollet del Vallès (hið síðastnefnda er smáþorp á stærð við Kópavog, Garðabæ og einn Garðabæ í viðbót).
Útsýnið á leiðinni til baka var svo fagurt að ég ákvað að taka mér þrjá auka útsýnistúra. Það er að segja ég villtist þrisvar á leiðinni. Síðasti útúrdúrinn var all svakalegur. Ég hjólaði — dauðþreyttur — upp langa brekku norðurhluta Barcelona til þess eins að átta mig á því að brekkan var ekki beint hluti af stystu leið heim. Úr varð að leiðin til baka frá Granollers var þriðjungi lengri en leiðin til Granollers.
Þetta var hin fínasta páskahjólaferð. Hjólaði 70km án þess að leggja í nein fjöll. Ég held ég leggi ekki í fjöllin þangað til að það fer að hlýna smá og áður en það fer að hlýna um of.