MACBA
Ég vaknaði upp við vondan draum í morgun. Draum sem var þó blákaldur veruleiki. Ég áttaði mig á því að ég hafði búið í næstum níu mánuði í Barcelona án þess að hafa skoðað helstu söfn borgarinnar. Til þess að reyna að bæta eilítið úr þeim málum þá skellti ég mér á nýlistasafnið í dag — Museu d’Art Contemporani de Barcelona (MACBA).
Safnið er hið ágætasta nýlistasafn. Þar er tiltölulega mikið af abstrakt expressjónisma eftir m.a. Jackson Pollock, Mark Rothko, Arshile Gorky og Willem de Kooning. Auk þess voru þónokkur verk eftir heimamennina Pablo Picasso, Joan Miró og Antoni Tàpies. Ég saknaði hins vegar Andy Warhol, Roy Lichtenstein og Edward Hopper — verð bara að sjá þá annars staðar.
Ég tók nokkrar myndir af safninu (þ.e. ég tók ljósmyndir af safninu en tók ekki málverk af safninu).
Auk þess fannst mér afar heillandi að gólfið í andyri safnsins var gert úr hálf gegnsæum flísum.
Á leiðinni til og frá safninu tók ég nokkrar myndir af hinum frægu húsum Antoni Gaudí á Passeig de Gracia — Casa Milà (La Pedrera) og Casa Batlló.
Á leið minni upp Passeig de Gracia voru einnig fleiri spegilmyndir.
Auk þess tók ég nokkrar myndir af götulist.