24 Mitja Marató Sant Cugat ?>

24 Mitja Marató Sant Cugat

Fyrir tæpu ári síðan náði ég þeim merka árangri að hlaupa mitt fyrsta hálf-maraþon. Þar að auki náði ég markmiði mínu að hlaupa maraþonið hálfa á innan við tveimur tímum. Þessi merki árangur kom í kjölfar hálfs árs skipulagðar þjálfunar.

Nú ári síðar er öldin talsvert önnur. Ég byrjaði árið með því að hlaupa nokkuð reglulega fyrstu fimm mánuðina. Frá miðjum maí fram í lok ágúst var hins vegar of heitt hér í Bacelona til þess að hreyfa sig meira en nauðsynlegt var. Hlaupaskórnir voru því lagðir á hilluna. Í lok ágúst og byrjun september tók ég hins vegar hlaupaskóla fram að nýju og fór út að hlaupa tvær helgar í röð. Því næst tóku við fjórar hlaupa-lausar vikur (að vísu var ein vikan af þessum fjórum ekki alveg hreyfingarlaus … en það er önnur saga — önnur saga sem ég hef lofað að setja á netið einhvern tíman á næstu vikum). Síðusta hálfa árið hefur því ekki beinlínis verið tími skipulagðrar þjálfunar.

Í dag ákvað ég að framkvæma há-vísindalega tilraun. Markmið tilraunarinnar var að sýna fram á að skipulögð þjálfun er bara fyrir aumingja. Takmarkið var að hlaupa í dag hálft maraþon — þjálfunarlaust — á betri tíma en ég gerði fyrir ári síðan. Ég skrapp því í morgun til bæjarins Sant Cugat til þess að taka þá í 24 Mitja Marató Sant Cugat — 24 Sant Cugat hálf maraþoninu.

Óhætt er að segja að tilraunin byrjaði með miklum ágætum. Ég hljóð fyrstu fimm kílómetrana ág 25:53 mínútum og næstu fimm á 26:06. Það leit því allt út fyrir að það yrði heldur fáfengilegt verk að ná betri tíma en fyrir ári síðan.

Stuttu eftir tíu kílómetra markið tók hins vegar að halla undan fæti — í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi tók við smá brekka upp í móti og í öðru lagi fór ég að fynna fyrir þreytu. Það er skemmst frá því að segja að stuttu eftir tíu kílómetra markið sprakk ég gersamlega á limminu. Kílómetrana númer tíu til fimmtán hljóp ég á 29:24 mínútum.

Eftir fimmtán kílómetra markið tók eldurinn við af öskunni. Ég ver gersamlega búinn að vera. Eftir sautján kílómetra markið neyddist ég til þess að skiptast á að hlapa og labba. Smávegis brekkur virtust mér sem há fjöll (jafnvel þótt ég ætti nú ekki að kalla allt ömmu mína þegar kemur að brekkum … en það er önnur saga — reyndar sama "önnur sagan" og getið var hér að ofan … meira um það síðar). Jafnvel hraðahindranir reyndust bera nafn með rentu.

Þegar ég eygði nítján kílómetra markið sagði ég við sjálfan mig: "Nú er að duga eða drepast, bara rúmlega tveir kílómetrar til stefnu". Ég drapst. Ég gat ekki með nokkru móti aukið ferðina. Ég neyddist til að halda áfram blöndu af hlaupi (réttara sagt hægu skokki) og labbi. Niðrulægingin var síðan fullkomnuð þegar trúður í fullum skrúða hljóp fram úr mér rétt eftir nítján kílómetra markið.

Svo fór að þegar ég náði tuttugu kílómetra markinu hafði ég hlaupið/labbað síðustu fimm kílómetra á 34:08 mínútum. Það tók mig síðan rétt tæplega sjö mínútur að klára síðasta kílómetrann.

Sem sagt, ég hljóp maraþonið hálfa á 2:02:28. Í stað þess að bæta mig um fjórar mínútur — eins og ég hafði lagt upp með í upphafi — þá lauk ég hlaupinu á fjögurra mínútna lakari tíma en fyrir ári síðan. Síðast en ekki síst kom ég í mark nokkrum mínútum á eftir trúði. Mér tókst því miður ekki að sýna fram á að óskipulögð þjálfun sé betri leið til árangurs en skipulögð þjálfun.

Þrátt fyrir að hafa mistekist ætlunarverk mitt þá er ég þegar upp er staðið nokkuð ánægður með framistöðu mína í dag. Ég er allavegana enn í nógu góðu formi til þess að hlaupa (með smá labbi) hálft maraþon. Ég held ég reyni hins vegar að koma smá skipulagi á hlaupa þjálfunina áður en ég reyni á ný að bæta metið mitt.

Skildu eftir svar