Montseny — Olot
Rétt fyrir sex settist ég niður á Placa Major í Olot. Búinn að hjóla annan áfanga Katalóníu hjólreiðanna, bóka mig inn á hótel og fá mér síestu. Ég pantaði mér kaffi með mjólk og eplaböku. Eplabakan var vel þegin enda hafði ég ekki haft orku til þess að fá mér miðdegismat þegar ég kom í bæinn. Ákvað þess í stað að fara beint í síestu. Ég var afar ánægður með hjólaferð dagsins. Líkt og á sunnudaginn var ferðin á mörkum þess sem líkami minn ræður við — þó á annan hátt en sunnudags ferðin.
Ég tók daginn tiltölulega snemma. Var sestur á hjólið fyrir hálf-níu. Ég hafði beðið þess í ofvæni að bruna niður brekkuna niður til Viladrau. Ég brunaði af stað, fullur orku og bjartsýni um að næstu stundir yrðu náðugar. Strax í annarri beygju kom hins vegar babb í bátinn. Í stað þess að finna brekku sem hallaði niður í móti tók við brekka upp í mót. Þetta var nú heldur lítill halli og ekkert sem erfitt var að hjóla. Það var hins vegar svekkjandi að þurfa að hjóla enn á ný upp í móti þegar ég hafði hlakkað svo mikið til að byrja daginn á að bruna niður í móti.
Upp-í-mót-lætið entist næstu þrjá kílómetrana. Eftir það kom að hinni langþráðu brekku niður í móti. Við tóku tíu kílómetrar af bruni niður í móti áður en ég þrufti að stíga á pedalana á ný til þess að knýja mig áfram upp næstu brekku. Þessi dagur virtist stefna í að ganga upp og niður.
Það var fleira sem kom mér á óvart heldur en sú staðreynd að leið mín var ekki einhalla. Þar að auki var tiltölulega kalt. Ég hafði fyrir rælni farið í hlaupapeysu yfir hlaupabolinn (já, hlaupapeysu en ekki hjólapeysu. Ég er ekki búinn að kaupa mér peysu uppáhalds hjólaliðsins míns — enda er ég ekkert viss um að ég eigi uppáhalds hjólalið lengur eftir að Rabobank liðið rak Rasmussen. Rabobank og Rasmussen höfðu nefnilega verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan ég byrjaði að fylgjast með Frakklands hjólreiðunum árið 2005 — en það er allt önnur saga). Hvar var ég staddur í þessari sögu? Já alveg rétt, ég hafði í morgun fyrir rælni klætt mig í peysu og farið í sokkum í sandalana. Þegar ég brunaði niður brekkuna í skugga trjánna var ég afar sáttur við þennan tilviljunarkennda klæðaburð minn. Það var nefnilega barasta skrambi kalt. Það lá við að ég saknaði þess að vera ekki með vettlinga.
Eins og áður sagði tók enn ein upp-í-móti brekkan við eftir tíu kílómetra langt brunið. Hún entist þó ekki lengi og fyrr en varði var ég komminn á brunið á ný. Brunkaflinn sá entist talsvert lengi og áður en ég vissi af var ég kominn í gegnum bæinn Vic. Búinn að leggja að baki 40 kílómetra á tveimur tímum.
Stuttu eftir 40 kílómetra markið var ,,gamanið“ hins vegar búið að sinni (eða rétt að byrja — eftir því hvernig á það er litið). Fjöllin voru framundan. Eftir fjallaferð sunnudagsins litu þessi fjöll heldur aumingjalega út. Heldur lág. Ég taldi mér þess vegna trú um að þau yrðu ekki erfiður hjalli.
Ég var þó ekki búinn að hjóla lengi upp í móti þegar ég fór að finna fyrir merkjum þess að þetta var fimmti dagurinn í röð sem ég stundaði meiri hreyfingu en á meðal degi. Ég fann fljótt fyrir því að batteríin voru ekki fullhlaðin. Jafvel þessi litlu aumingjalegu fjöll reyndust erfið.
Ég stritaði upp í móti næstu tímana. Í samanburði við fjöll sunnudagsins voru þessi fjöll ekki eins brött. Ég var hins vegar nærri því jafn þreyttur og á sunnudaginn. Tæpum tveimur tímum eftir að ég byrjaði að klifra upp í móti náði ég staðbundnu hágildi. Ég var kominn upp yfir 1000 metra á ný. Við tók langþráð brekka niður í móti. Ég naut þess að láta þyngdaraflið knýja mig áfram. Það voru þó blendnar tilfinningar sem fóru um mig þegar ég brunaði niður brekkuna. Ég gat nefnilega séð fjöll framundan og vissi að þetta yrði einungis tímabundið ástand. Á sama tíma og ég naut þess að bruna niður brekkuna þá vonaði ég að gamanið tæki fljótt enda. Röksemdafærsla mín var sú að þeim mun minni hæð sem ég tapaði þeim mun minni hæð þyrfti ég að takast á við til þess að komast yfir síðasta hjallann.
Gamanið reyndist og stutt. Staðbundnu lággildi (865m) var fljótt náð. Eftir að þyngdaraflið hafði lagt lóð sitt á vogarskálarnar síðustu tíu mínúturnar þá var nú komið að því að hengja lóðið um háls mér. Brekka upp í móti tók við og ég þurfti að drösla mér, hjólinu og farangrinum — á móti þyngdaraflinu — upp yfir 1000 metrana á ný. Brekkan var brött til að byrja með en brátt tók við nokkurn veginn jafnslétta. Jafnsléttan reyndist þó álíka erfið og brekkan. Ég var nefnilega orðinn óhemju þreyttur. Mig var farið að lengja í að geta brunað niður síðustu brekkuna. Hver metri sem ekki var niður í móti var sem brött brekka upp í móti.
Fyrir rest komst ég þó yfir jafnsléttuna. Við tók rúmlega tíu kílómetra löng brekka. Ég geystist áfram á ógnarhraða — þar sem ógnarhraði er skilgreindur sem meira en 30 km/klst. Mesti hraði sem ég náði í brekkunni var 52 km/klst — víííí!. Það var afar góð tilfinning sem fór um mig þegar ég brunaði niður brekkuna. Brekkan var tákn þess að erfiðið var yfirstaðið og ég þurfti nú ekki annað en að láta mig renna niður á hótel.
Eftirleikurinn reyndist þó ekki svo auðveldur. Eftir um 20 mínútna brun var brekkunni lokið. Ég var kominn niður á jafnsléttu. Ég var þó enn rúmum átta kílómetrum frá takmarki mínu. Næsta hálftímann notaði ég síðustu orkuna sem ég átti í líkamanum til þess að færa mig nær marki mínu. Nokkurn veginn á slaginu tvö — spænskum hádegismatar tíma — renndi ég upp að dyrum hótelsins sem ég hafði bókað í bænum Olot. Ég hafði þó ekki orku til þess að fá mér hádegismat. Ég fór beint í síestuna.
Það erfiðasta við hjólaleið dagsins var að hafa ekki orku til þess að hjóla hana almennilega. Þó svo að brekkurnar væru ekkert svo rosalega brattar neyddist ég til að silast áfram í fjallagír. Þetta var ekki barátta milli mín og fjallanna. þetta var barátta milli mín og þreytunnar í vöðvunum. Á leiðinni upp brekkurnar skildi ég betur af hverju alvöru hjólreiðamenn taka inn stera til þess að eiga auðveldara með að jafna sig á milli sérleiða. Ég ákvað að næst þegar færi í svona hjólaferð ætlaði ég að undirbúa mig á sama hátt og atvinnumennirnir. Ég ætlaði að pakka niður nokkrum skömmtum af sterum. Ég held það geri ferðalagið mun ánægulegra — eða ekki.
Hér má finna kort af hjólaferð dagsins.