Matagalls ?>

Matagalls

Ég vaknaði heldur hissa í morgun. Hissa yfir því að vera laus við harðsperrur þrátt fyir langan og erfiðan hjólatúr gærdagsins. Dagurinn virtist því tilvalinn fyrir fjallgöngu. Eftir vel útilátinn morgunmat setti ég stefnuna á Matagalls (1697m) — einn af hærri tindum í Montseny þjóðgarðinum. Leiðin lá í gegnum skóglendi upp sæmilega bratta hlíð. Hlíðin var að minnsta kosti nógu brött til þess að taka aðeins í kálfana og lærin. Ég fann það fljótt að jafnvel þótt ég væri laus við harðsperrur þá voru vöðvarnir heldur þreyttir eftir hjólatúr gærdagsins.

Þegar á leið dró úr brattanum og stígurinn lá eftir eilítið aflíðandi fjallshrygg. Úr varð afar notaleg ganga í gegnum skóglendi. Ég var afar sáttur við að vera í skugga trjánna enda hafði ég fengið ágætis skammt af sól daginn áður.

Eftir hálfan annan tíma í skóginum birti til. Skógurinn var að baki og  tindurinn Matagalls blasti við. Þetta var nú enginn svaka tindur. Einungis endastöð aflíðandi brekku. Í rauninni var um þrjá tinda að ræða. Ég röllti upp á þann fyrsta og þriðja. Á þeim þriðja var kross — líklega til minnis um einvhern eða eitthvað.

Matagalls
Matagalls de GR 5.2
La Creu de Matagalls
La Creu de Matagalls
La Creu de Matagalls

Eftir að hafa dvalið um hríð við krossinn og dáðst að útsýninu ákvað ég að halda áfram göngunni. Ég hélt því afram eftir göngustígnum lengra inn í þjóðgarðinn. Ég byrjaði á að stoppa hjá brunni rósarinnar til þess að fylla á vatnsbrúsa. Ég hafði nefnilega gleymt að taka með mér vatn.

Font de la Rosa
Lizard
Font de la Rosa

Eftir stutta göngu kom ég að brattri hlíð. Ákvað að láta þar staðar numið. Ekki það að ég nennti ekki að ganga niður brekkuna heldur vegna þess að ég nennti ekki að ganga upp brekkuna aftur á leið minni til baka. Ég ákvað því að setjast á stein, borða nestið mitt (afganginnn af nesti gærdagsins), hvíla lúin bein, njóta útsýnisins, og skrifa smá hluta af þessari ferðasögu (og sögu gærdagsins). Eftir dágóða afslöppun hélt ég síðan til baka sömu leið og ég kom — upp að Matagalls og niður hinum megin í gegnum skóginn.

Eftir gönguna fékk ég mér síestu. Eftir síestuna fékk ég mér kvöldmat. Eftir kvöldmatinn fór ég að sofa.

Skildu eftir svar